Hoppa yfir valmynd

Frétt

4. febrúar 2008 Heilbrigðisráðuneytið

Tannverndarvika 2008

Í tannverndarvikunni sem nú stendur leggja Lýðheilsustöð og Heilsugæsla höfðuborgarsvæðisins megináherslu á fræðslumál. Af þessu tilefni verður haldinn fræðslufundur á morgun, þriðjudaginn 5. febrúar, kl. 11:00 á vegum Lýðheilsustöðvar og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Fundurinn verður í Hringsal Barnaspítala Hringsins. Á fræðslufundinum verður meðal annars kynntur margmiðlunardiskur með fræðsluefni um munnhirðu, en diskur þessi var að koma út. Diskurinn hefur verið lengi í vinnslu, en undirbúningur hans hófst hjá Tannverndarráði undir formennsku dr. Helgu Ágústsdóttur hjá heilbrigðisráðuneytinu snemma árs 2004. Vinnslu hans var síðan haldið áfram í Lýðheilsustöð eftir flutning Tannverndarráðs þangað. Saga Film hefur annast upptöku og tæknivinnslu disksins en fjölmargir tannlæknar og tannfræðingar hafa komið að vinnslunni og látið í té klínískar myndir, unnið atriði með sjúklingum sínum og unnið að textagerð. Aðalmarkmið verkefnisins var eins og áður sagði að auðvelda fræðslu starfsfólks sem annast munnhirðu skjólstæðinga sinna á hinum ýmsu stofnunum auk þess að nýtast sem kennslugagn í skólum. Markhópar eru því einkum starfsfólk sem sinna munnhirðu aldraðra á öldrunar- og hjúkrunarheimilum og starfsfólk sambýla, auk starfsfólks sjúkrahúsa.

Dagskrá fundarins á Barnaspítalanum á morgun er svona:

11:10 Ávarp - Guðmundur Einarsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins
11:15 Kynning fræðsluefnis - Hólmfríður Guðmundsdóttir, tannlæknir hjá Miðstöð tannverndar og Lýðheilsustöð
11:30 Frumsýning fræðsluefnis
11:50 Umræður
-  fyrirspurnum svara tannlæknarnir Inga B. Árnadóttir, forseti tannlæknadeildar Háskóla Íslands, Helga Ágústsdóttir, deildarstjóri í Heilbrigðisráðuneytinu, og Hólmfríður Guðmundsdóttir
12.00 Fundarslit

Fundarstjóri: Þórólfur Þórlindsson, forstjóri Lýðheilsustöðvar.

Fundurinn er öllum opinn en að auki er með fjarfundarbúnaði hægt að fylgjast með honum hvar á landinu sem er. Þeir sem þess óska þurfa að hafa sambandi við [email protected] og gefa upp IP tölu fyrir hádegi mánudaginn 4. febrúar.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum