Hoppa yfir valmynd

Frétt

7. febrúar 2008 Heilbrigðisráðuneytið

Heilsugæslan hornsteinninn

Heilsugæslan er og verður áfram hornsteinn grunnþjónustu heilbrigðiskerfisins í landinu sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, aðspurður á Alþingi. Heilbrigðisráðherra lét þessi orð falla þegar hann svaraði fyrirspurnum um málið frá Álfheiði Ingadóttur, VG, sem spurði um uppbyggingu heilsugæslunnar á Höfuðborgarsvæðinu. Sagði ráðherra að alls staðar á landinu væri mikilvægt að heilsugæslan væri nærri þeim sem hún þjónar, að þjónustan væri aðgengileg og mönnuð færu starfsfólki og ráðherra bætti við: “Eftir að ég kom í ráðuneytið var strax farið í það að skoða þessi mál. Við höfum verið að skoða reynsluna af þeirri þjónustu sem er til staðar núna. Rekstrarform er mismunandi og mismunandi hlutir sem verið er að nýta þarna og við höfum ágætis upplýsingar um gæði og þjónustu, afköst og annað slíkt.

Þetta höfum við verið að skoða og ekki aðeins það, heldur hef ég, eins og ég hef lýst yfir, skipað sérstakan starfshóp undir formennsku Guðjóns Magnússonar, sem er fyrrum framkvæmdastjóri hjá Evrópuskrifstofu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar í Kaupmannahöfn. Guðjóni er ætlað að leiða þennan hóp og hópnum að skila mér áfangaskýrslu strax á vormánuðum. Auk þess höfum við átt samræður við ýmsa aðila, forustumenn lækna og aðra í heilsugæslunni til að fá fram hugmyndir þeirra um framtíðaruppbyggingu á þessu sviði og ég var bara fyrir nokkrum klukkustundum síðan að ræða við yfirlækna um þessi mál. Ég mun bregðast frekar við þegar ég hef álit þessarar nefndar í höndunum.

Hvað varðar byggingaráformin þá er nú verið að vinna að byggingu nýrrar 10 lækna stöðvar í Árbæjarhverfi og á því verki að ljúka á þessu ári. Mun það bæta verulega möguleika þeirrar stöðvar til að sinna nálægum hverfum. Einnig er í skoðun sá möguleiki að stækka húsnæði heilsugæslustöðvar Miðbæjar en ákvarðanir hafa ekki verið teknar í því efni. Frekari áform um byggingar munu bíða þar til álit áðurgreindrar nefndar liggur fyrir.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan að ég tel að heilsugæslan sé og verði hornsteinn þjónustunnar. Hún mun fá vaxandi verkefni í framtíðinni og verður að geta sveigt sig og sinnt breyttum þörfum fólks, bæði hvað varðar aðgengi og úrlausnir.” Ráðherra vísaði því á bug að 500 milljónir vantaði í rekstur Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og sagði þá tölu ekki verða réttari þótt menn endurtækju hana sí og æ. – Það er nákvæmlega ekkert sem bendir til að svo sé", sagði heilbrigðisráðherra.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum