Hoppa yfir valmynd

Frétt

11. febrúar 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fæðingarorlof Íslendinga fyrirmynd annarra þjóða

Félags- og tryggingamálaráðuneytið mun að beiðni framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins standa fyrir sérfræðingafundi með fulltrúum 15 aðildarríkja sambandsins síðar á þessu ári. Þetta var staðfest á fundi sem Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, átti með fulltrúum framkvæmdastjórnarinnar í tengslum við fund jafnréttisráðherra aðildarríkja Evrópusambandsins og EES-ríkja sem haldinn var í Slóveníu í síðastliðinni viku. Á fundinum verður meðal annars fjallað um íslenska fæðingarorlofslöggjöf og þátttöku íslenskra feðra í feðraorlofi.

Ráðherra átti jafnframt viðræður við Vladimir Spidla, framkvæmdastjóra atvinnu- og félagsmálasviðs Evrópusambandsins á atvinnu- og félagsmálasviði, um hugmyndir framkvæmdastjórnarinnar um breytingar á reglum um fæðingarorlof varðandi fæðingarorlof feðra.

Jóhanna Sigurðardóttir átti einnig viðræður við Manuelu Ramin-Osmundsen, barna- og jafnréttisráðherra Noregs, sem óskaði eftir að heimsækja Ísland í apríl til að kynna sér reynsluna af fæðingarorlofinu á Íslandi og fleiri mál. Umboðsmaður jafnréttis- og mismununar í Noregi, Ingeborg Grimsmo, afhenti Manuelu Ramin-Osmundsen, barna- og jafnréttisráðherra, nýlega úttekt á fæðingarorlofskerfinu í Noregi með þeim orðum að heppilegt væri að feta í fótspor Íslendinga og binda ákveðinn hluta orlofsins eingöngu við feður.

Tenging frá vef ráðuneytisinsÚttekt á fæðingarorlofskerfinu í Noregi

Loks óskaði Viera Tomanova, ráðherra atvinnu-, félags- og fjölskyldumálaráðherra Slóvakíu, eftir fundi með félags- og tryggingamálaráðherra. Óskaði Viera Tomanova eftir því að sérfræðingar frá Slóvakíu heimsæktu félags- og tryggingamálaráðuneytið og kynntu sér uppbyggingu á fæðingarorlofi á Íslandi og þátttöku íslenskra feðra í umönnun barna sinna.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum