Hoppa yfir valmynd

Frétt

12. febrúar 2008 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Staðardagskrárstarf hefur skilað miklum árangri

Undirritun sveitarfélaga
Ólafsvíkuryfirlýsingin undirrituð

Tíunda landsráðstefnan um Staðardagskrá 21 var haldin í Hveragerði um liðna helgi. Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra setti ráðstefnuna. Í ávarpinu sagði ráðherra að þótt erfitt væri að mæla árangur Staðardagskrárstarfs hér á landi þá væri alveg ljóst að hann hefði skilað miklum árangri. Árangurinn endurspeglaðist m.a. í umræðum í samfélaginu þar sem mikil áhersla væri lögð á að sjá fyrir áhrif ákvarðana á umhverfi og samfélag, en fyrir tíu árum hafi orðin umhverfi og samfélag sjaldan verið nefnd í sömu andrá. Umhverfisráðherra sagði að þessi aukna áhersla á heildarsýn og langtímasjónarmið bæri vitni um hvernig hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar væri smátt og smátt að síast inn í daglega hugsun fólks, orð og gjörðir. Vafalaust ætti Staðardagskrárstarfið stóran þátt í því.

Alls vinna nú 25 sveitarfélögu eftir samþykktri framkvæmdaáætlun til langs tíma í anda Staðardagskrár 21. Samtals hafi 66 af 79 sveitarfélögum landsins komið að þessu verkefni með einum eða öðrum hætti. Fulltrúar nokkura sveitarfélaga undirrituðu Ólafsvíkuryfirlýsinguna á landsráðstefnunni og þar með hafa 51 sveitarfélag undirritað hana. Með samþykkt yfirlýsingarinnar skuldbinda sveitarfélögin sig til að leggja sitt af mörkum til sjálfbærrar þróunar, meðal annars með því að virkja íbúa, félagasamtök og aðila atvinnulífsins til öflugrar þátttöku í verkefnum sem tengjast Staðardagskrá 21 og með því að hafa markmiðið um sjálfbæra þróun að leiðarljósi við gerð skipulagsáætlana, sem og við aðra ákvarðanatöku um málefni sveitarfélagsins.

Í febrúar á síðasta ári var gengið frá nýjum samningi um samstarf umhverfisráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um Staðardagskrárstarfið á landsvísu. Samningurinn gildir til ársloka 2009. Við sama tækifæri var gengið frá nýjum samningi milli umhverfisráðuneytisins og iðnaðarráðuneytisins um sérstakt átak til að styðja við Staðardagskrárstarf í fámennustu sveitarfélögunum á landsbyggðinni.

Á heimasíðu Staðardagskrár 21 á Íslandi er hægt að nálgast fyrirlestra sem fluttir voru á ráðstefnunni.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum