Hoppa yfir valmynd

Frétt

20. febrúar 2008 Heilbrigðisráðuneytið

Líffæragjafar

Um hundrað og fimmtíu Íslendingar hafa fengið grædd í sig nýru, bæði frá lifandi og látnum gjöfum. Spurt var um lífæragjöf á Alþingi í dag. Það var Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, sem upplýsti um fjölda líffæraígræðslna á Íslandi, þegar hann svaraði fyrirspurn um málið frá Siv Friðleifsdóttur, Framsóknarflokki. Ráðherra sagði: „Til almennra upplýsinga er mér ljúft að nefna nokkur dæmi um stöðulíffæraígræðslna hér á landi. Fram til síðustu áramóta höfðu alls 10 einstaklingar fengið 11 hjartaígræðslur, 24 einstaklingar fengið 26 lifrarígræðslur og 151 einstaklingur hefur fengið 169 nýrnaígræðslur þar af 96 frá lifandi gjöfum en 73 frá látnum gjöfum.“ Siv Friðleifsdóttir spurði heilbrigðisráðherra um fjölda líffæragjafa í landinu og hve mörg líffæragjafakort væru útgefin. Heilbrigðisráðherra svaraði því til að heildarfjöldi útgefinna korta væri ekki þekktur: „Á vegum landlæknisembættisins hefur um mjög langt skeið verið staðið fyrir útgáfu korta, sem einstaklingar geta fyllt út og gengið með á sér og á þann hátt geta þeir upplýst um afstöðu sína til líffæragjafa. Viðkomandi getur ýmist heimilað að líffæri hans séu nýtt til líffæragjafar, einstaklingurinn getur einnig undanskilið ákveðin líffæri og sömuleiðis getur viðkomandi lýst yfir að hann heimili ekki líffæragjöf.

Eins og ég gat um áður, hafa þessi kort verið gefin út til fjölda ára, þau fylgja fræðslubæklingi og getur einstaklingurinn fjarlægt kort af einni síðu bæklingsins, fyllt í upplýsingar um eigin vilja og undirritað. Fjöldi þessara korta er ekki þekktur og hvergi skráður, þau geta bæði týnst og slitnað, þannig að sá heildarfjöldi korta sem einstaklingar ganga með á sér er ekki þekktur.

Í öðru lagi spyr háttvirtur þingmaður hvort kortin hafi lagalegt gildi, hvort ættingjum sé t.d. skylt að hlíta vilja líffæragjafa.

Því er til að svara að kort þessi lýsa einungis almennum vilja þess sem hefur undirritað kortið. Getur þessi viljayfirlýsing gert eftirlifandi ættingjum hægara um vik að taka ákvörðun á örlagastundu, en lagalegt gildi þeirra ekki bindandi á nokkurn hátt.”



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum