Hoppa yfir valmynd

Frétt

20. febrúar 2008 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ráðherrafundur Umhverfisstofnunar S.þ.

UNEP
UNEP

Fleiri en eitt hundrað umhverfisráðherrar komu saman á árlegum ráðherrafundi Umhverfisstofnunar S.þ. (UNEP), sem hófst í Mónakó í dag. Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra sækir fundinn fyrir hönd Íslands.

Loftslagsmál eru ofarlega á dagskrá fundarins, í ljósi þess að ríki heims ákváðu í Balí í desember síðastliðnum að hefja nýjar víðtækar samningaviðræður, sem eiga að leiða til framtíðarsamkomulags sem brúar bil á milli þróaðra ríkja og þróunarríkja og ríkja sem hafa staðið innan Kýótó-bókunarinnar og utan. Í Mónakó verður sérstaklega rætt um fjármögnun aðgerða í loftslagsmálum og hvernig beina megi fjárfestingum, m.a. í orkugeiranum, á loftslagsvænni brautir. Þó að fjárfesting í endurnýjanlegri orku og annarri loftslagsvænni tækni hafi aukist mikið á undanförnum árum þá fer megnið af henni enn til vinnslu og brennslu jarðefnaeldsneytis. Því skiptir miklu fyrir loftslagsmálin að fjárfesting nú fari fremur til loftslagsvænna kosta en t.d. kolaorkuvera, sem gætu verið starfrækt áratugum saman.

Ráðherrarnir munu einnig ræða efnamengun, m.a. af völdum kvikasilfurs, en UNEP hefur unnið að gerð alþjóðlegs samkomulags um að takmarka losun þess. Kvikasilfur og aðrir þungmálmar hafa tilhneigingu til að berast langar leiðir og safnast upp í fæðukeðjunni, meðal annars á Norðurslóðum. Mikið hefur áunnist í alþjóðlegu samstarfi við að takmarka losun þrávirkra lífrænna efna, sem haga sér á svipaðan hátt, og því er vilji til þess að taka á kvikasilfursmengun á sama máta.

Heimasíða fundarins.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum