Hoppa yfir valmynd

Frétt

27. febrúar 2008 Heilbrigðisráðuneytið

Verkefnastaða nýs háskólasjúkrahúss kynnt

Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, og Inga Jóna Þórðardóttir, formaður nefndar um byggingu nýs háskólasjúkrahúss kynntu starfsmönnum og fjölmiðlum stöðu byggingamála LSH í dag.

Tveir kynningafundir voru á Landspítalanum þar sem ráðherra og formaður nefndarinnar kynntu starfsmönnum stöðu undirbúnings byggingamálanna, annar í Fossvogi og hinn við Hringbraut.

Nú liggja að mestu fyrir frumáætlanir um byggingu nýs Landsspítala af hálfu dönsku arkitektanna frá C.F. Möller. Stefnt er að forvali hönnunarsamkeppni á næstu vikum. Samkeppnisgögnin eiga að liggja fyrir í júnímánuði og munu þau teymi sem valin verða í forvalinu fá samkeppnisgögnin afhent í júlí og hafa þá þrjá mánuði til að vinna tillögur sínar.

Samtímis hefur nefnd undir forystu Ingu Jónu Þórðardóttur endurmetið og yfirfarið allar forsendur fyrir byggingu nýs Landspítala við Hringbraut. Frumáætlanir arkitektanna og framvinda alls verksins er í fullu samræmi við það sem nefndin hefur lagt fyrir Guðlaug Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra.

Meðal þess sem nefndin fór yfir voru spurningar og ábendingar um staðsetningu nýja sjúkrahússins. Niðurstaða nefndarinnar var sú að besta staðsetningin fyrir nýtt háskólasjúkrahús sé við Hringbraut.

Þrotlaus undirbúningsvinna hefur staðið frá árinu 2005 vegna þessa mikla og flókna mannvirkis. Skipulagssamkeppni um svæðið við Hringbraut lauk haustið 2005 og bar tillaga dönsku arkitektanna C.F. Möller sigur úr býtum. Í framhaldi af þeirri samkeppni var samið við C.F. Möller og skipuð framkvæmdanefnd vegna byggingar sjúkrahússins. Á þriðja hundrað manns tóku þátt í umfangsmikilli þarfagreiningu á nýja háskólasjúkrahúsinu. Í framhaldi af þeirri vinnu var samið við arkitektastofuna C.F. Möller í Árósum í Danmörku um að skila frumáætlun að byggingunni sem nú liggur fyrir í samráði við það fagfólk af hálfu LSH sem unnið hefur að undirbúningnum.

Hópar fólks sem ekki hafa áður komið að verkinu verða fengnir til að rýna áætlunina við gerð samkeppnisgagnanna og þannig að tryggt verði að hugsað sé fyrir öllu og vel sé að verki staðið.

Stefnt er  að því að kynna vinningstillögu í samkeppninni í nóvember og jafnframt að undirrita samning um hönnun nýja háskólasjúkrahússins. Þegar endanleg hönnun og útlit liggur fyrir verður hægt að kynna raunhæfa kostnaðaráætlun við bygginguna.

Fyrr í dag kynntu þau Guðlaugur Þór Þórðarson og Inga Jóna Þórðardóttir stöðu byggingamála Landspítalans á fjölmennum starfsmannafundi í heilbrigðisráðuneytinu, en á morgun fimmtudaginn 28. febrúar verður haldinn opinn kynningarfundur um verkefnið í Ráðhúsi Reykjavíkur og hefst hann klukkan 17:00.

Frummælendur á fundinum verða Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra og Inga Jóna Þórðardóttir, formaður nefndarinnar sem hefur yfirumsjón með byggingu nýja háskólasjúkrahússins.

Fundarstjóri er Árni Þór Sigurðsson sem jafnframt á sæti í nefndinni. Teikningar frá C.F. Möller arkitektastofunni verða til sýnis fyrir almenning.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum