Hoppa yfir valmynd

Frétt

27. mars 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Lífeyrir hækkar og lágmarksframfærsluviðmiði flýtt

Í tengslum við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninga Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins hefur fjármálaráðuneytið reiknað út að meðaltalshækkun lægstu launa þann 1. febrúar samkvæmt nýgerðum kjarasamningi sé um það bil 7% frá 2007. Í samræmi við það hefur félags- og tryggingamálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, undirritað reglugerð sem kveður á um hækkun lífeyris almannatrygginga hjá öryrkjum og ellilífeyrisþegum um 4% frá og með 1. febrúar síðastliðnum. Hækkunin tekur til allra lífeyrisflokka almannatrygginga og kemur til viðbótar þeirri 3,3% hækkun sem kom til framkvæmda 1. janúar síðastliðinn. Frá áramótum hefur lífeyrir almannatrygginga því hækkað um 7,4% eða sem nemur um það bil 9.400 krónum á mánuði miðað við óskertar bætur.

Félags- og tryggingamálaráðherra hefur einnig í samráði við forsætisráðherra ákveðið að fela nefnd sem vinnur nú að endurskoðun almannatrygginga að móta tillögur að sérstöku lágmarksframfærsluviðmiði fyrir lífeyrisþega og jafnframt flýta þeirri vinnu eins og kostur er. Lágmarksframfærsluviðmiðið taki meðal annars tillit til hækkunar lægstu launa í nýgerðum kjarasamningum og liggi fyrir eigi síðar en 1. júlí 2008.

Ofangreindar aðgerðir eru í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Koma þær til viðbótar þeim kjarabótum lífeyrisþega sem tilkynntar voru með yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í desember síðastliðnum og koma til framkvæmda í áföngum á árinu, fyrst með afnámi makatengingar þann 1. apríl næstkomandi. Þær aðgerðir ásamt þeim hækkunum lífeyris sem taka gildi frá 1. febrúar síðastliðnum nema um það bil 9 milljörðum króna á ári þegar þær verða að fullu komnar til framkvæmda.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum