Hoppa yfir valmynd

Frétt

2. apríl 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Framkvæmdaáætlun í barnavernd lögð fram í fyrsta sinn

Félags- og tryggingamálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, leggur fram á Alþingi í dag tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun ríkisins í barnavernd. Þar eru ýmis nýmæli meðal annars varðandi gæðastaðla og eftirlit með vistun barna og unglinga utan heimilis og ný meðferðarúrræði.

Samkvæmt 5. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, ber félags- og tryggingamálaráðuneytið ábyrgð á stefnumótun í barnavernd og skal ráðherra leggja fyrir Alþingi framkvæmdaáætlun til fjögurra ára í senn að loknum sveitarstjórnarkosningum. Þetta er í fyrsta sinn sem framkvæmdaáætlun af þessu tagi er lögð fyrir Alþingi. Framkvæmdaáætlun félags- og tryggingamálaráðuneytisins og Barnaverndarstofu nær frá gildistöku hennar á árinu 2008 til næstu sveitarstjórnarkosninga árið 2010. Áætlunin tekur meðal annars mið af nýlegri aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í málefnum barna og byggist á ákvæðum barnaverndarlaga um ábyrgð og skyldur ríkisins í barnaverndarmálum.

Markmið félags- og tryggingamálaráðuneytisins og Barnaverndarstofu með framkvæmdaáætluninni er að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega og árangursríka aðstoð. Í því augnamiði hafa ráðuneytið og Barnaverndarstofa sett sér eftirfarandi meginmarkmið sem unnið verður að á áætlunartímabilinu:

  • Aðgerðir til eflingar barnaverndarstarfs á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytisins.

Meginmarkmiðið er að efla barnaverndarstarf á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytisins með því að tryggja nauðsynlegt fjármagn til málaflokksins, eiga frumkvæði að þróun löggjafar á sviði barnaverndar og vinna reglubundið í samstarfi við Barnaverndarstofu að þróun málaflokksins og því að tryggja samráð og samvinnu við önnur ráðuneyti sem sinna málefnum barna.

  • Aðgerðir til eflingar barnaverndarstarfs á vegum Barnaverndarstofu.

Meginmarkmiðið er að efla barnaverndarstarf á vegum Barnaverndarstofu með því að greina úrlausnarefni á málefnasviðinu, fylgjast með þróun málaflokksins og leggja reglubundið fram tillögur til endurbóta við félags- og tryggingamálaráðuneytið og í kjölfarið taka þátt í framkvæmd þeirra. Einnig að bæta hæfni, getu og þekkingu starfsfólks Barnaverndarstofu og þeirra sem starfa á vegum stofnunarinnar.

  • Efling þjónustu og verklags.

Meginmarkmiðið er að efla þjónustu Barnaverndarstofu þannig að hún verði markvissari, aðgengilegri og skjótari og ávallt í samræmi við þarfir barna og fjölskyldna þeirra á hverjum tíma. Þetta á við um ráðgjöf, fræðslu, eftirlit og rekstur heimila og stofnana á vegum stofnunarinnar. Tryggt sé að jafnræði ríki gagnvart þeim sem stofnunin hefur samskipti við.

Í framkvæmdaáætluninni eru ýmis nýmæli, svo sem verkefni um þróun gæðastaðla um vistun barna utan heimilis og eftirlit með vistun barna utan heimilis. Þá er í áætluninni kveðið á um ný úrræði sem efla þjónustu, svo sem ný meðferðarúrræði, þ.e. fjölþáttameðferð (MST) og foreldrafærniþjálfun (PMT). Í fjölþáttameðferð felst að glímt er við hegðunarraskanir unglinga í nærumhverfi þeirra, þ.e. meðferð án þess að fjarlægja barn af heimili. Í foreldrafærniþjálfun felst að foreldrum standi til boða uppeldisráðgjöf og þjálfun í foreldrafærni þar sem einkum verði lögð áhersla á fræðslu og ráðgjöf fyrir foreldra fyrsta barns, foreldra barna á unglingsaldri og foreldra barna með sérþarfir.

Skjal fyrir Acrobat ReaderTillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum fram til næstu sveitarstjórnarkosninga árið 2010 (PDF, 255KB)



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum