Hoppa yfir valmynd

Frétt

2. apríl 2008 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Frumvarp til breytinga á friðunar- og veiðilögum

Alþingi
Alþingi

Umhverfisráðherra mælti á Alþingi í gær fyrir frumvarpi til breytinga á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Í frumvarpinu eru lagðar til þrenns konar breytingar á lögunum.

Í fyrsta lagi eru breytingar gerðar í þeim tilgangi að skerpa á þeirri skyldu sem kveðið er á um í gildandi lögum um skil á veiðiskýrslum. Veiðiskýrslur hafa mikilvægt rannsóknar- og upplýsingagildi við mat á ástandi og stofnstærð villtra fugla og spendýra, og eru því afar mikilvægt tæki til að styrkja og bæta árangur í skipulagi og stjórnun varðandi friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum. Í núverandi lögum er ekki að finna sérstakan hvata né úrræði til að framfylgja þeirri skyldu sem hvílir á veiðimönnum um að skila veiðiskýrslum. Með frumvarpi umhverfisráðherra á að bæta úr þessu. Til að tryggja að skýrslum verði ávallt skilað er lagt til að útgáfa nýs veiðikorts sé óheimil hafi veiðikorthafi ekki skilað veiðiskýrslu frá fyrra veiðitímabili. Þá er Umhverfisstofnun gert skylt að leggja á 1.500 kr. á leyfisgjald ef veiðikorthafi hefur ekki skilað veiðiskýrslu innan lögmæltra tímamarka. Lagt er til að Umhverfisstofnun auglýsi með áberandi hætti og góðum fyrirvara hvenær beri að skila veiðiskýrslum.

Í öðru lagi er lagt til í frumvarpinu að gjald fyrir útgáfu á nýju veiðikorti verði hækkað úr 2.200 kr. í 3.500 kr. Upphæð gjaldsins var síðast breytt árið 2003 og nú þykir ástæða til að hækka gjaldið vegna verðlagsþróunar og til að styrkja veiðirannsóknir.

Í þriðja lagi er lagt til að lögfest verði heimild fyrir Umhverfisstofnun til að halda leiðsögumannanámskeið vegna hreindýraveiða og jafnframt innheimtu kostnaðar við slíkt námskeiðahald. Með því er tekinn af allur vafi um að stofnuninni sé heimilt að halda slík námskeið með gjaldtöku.

Hægt er að nálgast frumvarpið í heild sinni og umfjöllun um það á heimasíðu Alþingis.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum