Hoppa yfir valmynd

Frétt

4. apríl 2008 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra á ársfundi Umhverfisstofnunar

Forstjóri, starfsfólk Umhverfisstofnunar, aðrið gestir

Umhverfisstofnun gegnir afar mikilvægu hlutverki í stjórn og framkvæmd umhverfismála enda er stofnuninni falið lögum samkvæmt mjög víðtækt verksvið. Í hennar hlut kemur að framfylgja mikilvægri stefnmörkun svo sem í náttúruverndar- og loftslagsmálum, stefnumörkun sem fram kemur í áherslum mínum til næstu fjögurra ára og ég hef kynnt forstöðumönnum stofnana.

Breytingar urðu á verkefnum ráðuneytisins og Umhverfisstofnunar um síðustu áramót þegar breytingar á Stjórnarráði Íslands tóku gildi. Með þessari breytingu voru Landgræðsla ríkisins og Skógrækt ríkisins færðar frá landbúnaðarráðuneyti til umhverfisráðuneytis og þau verkefni sem þessar stofnanir fást við fyrir utan verkefni er varða nytjaskógærækt, auk þess sem vatnamælingar Orkustofnunar voru fluttar til ráðuneytisins. Í frumvarpi sem ég lagði fram á Alþingi nú í vikunni er gert ráð fyrir að starfsemi Vatnamælinga og Veðurstofu Íslands verði sameinuð í nýrri sem mun bera heitið Veðurstofa Íslands. Jafnframt voru matvælamál færð frá ráðuneytinu til nýs ráðuneytis sjávar- og landbúnaðar og því er það ekki lengur hlutverk Umhverfisstofnunar að hafa með höndum matvælamál. Ég er þess fullviss að þessar breytingar mun styrkja umhverfismálin í landinu og gera okkur betur fært að takast á við þau brýnu verkefni sem fyrir liggja, eins og í loftslagsmálum og á sviði náttúruverndar.

Ég mun á kjörtímbilinu leggja áherslu á að styrkja stöðu náttúru- og umhverfisverndar almennt en í því sambandi er þýðingarmest að okkur takist að skapa sátt um vernd og nýtingu náttúruauðlinda. Til að ná því markmiði er nú unnið að rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúruverndarsvæða. Í henni mun felast stefnmörkun stjórnvalda um landnotkun á einstökum svæðum, þ.e. vernd og nýtingu. Sérstök áhersla er nú lögð á að skoða háhitasvæði landsins og á flokkun landslagsgerða. Gert er ráð fyrir að rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða verði lögð fyrir Alþingi eigi síðar en síðla árs 2009.

Gert er ráð fyrir að Vatnajökulsþjóðgarður verði stofnaður á fyrri hluta þessa árs og mun á næstu árum verða unnið að uppbyggingu nýrra gestastofa og upplýsingamiðstöðva og stóraukinni landvörslu. Í ráðuneytinu er náttúruverndaráætlun 2009-2013 í undirbúningi, en þar er lögð áhersla á að koma á fót kerfi verndarsvæða til að tryggja lágmarksvernd þeirra vistgerða, jarðmyndana, tegunda og stofna sem þarfnast verndar í náttúru Íslands. En það er ekki nægilegt friðlýsa svæðin. Ef vel á að vera þarf að fylgja því eftir með viðeigandi uppbyggingu, viðhaldi og koma í veg fyrir að þau verði fyrir skemmdum. Friðlýst svæði þarf að gera aðgengileg fyrir almenning og tryggja að fólk sé upplýst um náttúrufar og sérstöðu svæðanna og hvaða þýðingu þau hafa. Þá þarf að auka fræðslu og efla umhverfisvernd til að tryggja betri umgengni og varðveislu landsins og koma í veg fyrir akstur utan vega. Hér gegnir Umhverfisstofnun lykilhlutverki en ég mun beita mér fyrir því að stofnunin geti sinnt betur þessu mikilvæga hlutverki sínu í þágu umhverfisverndar í landinu.

Glíman við loftslagsbreytingar er fyrirsjáanlega eitt stærsta verkefni mannkyns á komandi áratugum. Ísland hefur sett sér langtímamarkmið um að minnka nettólosun um 50-75% til 2050 og búast má við að auknar kröfur verði gerðar til Íslands um samdrátt í losun eftir 2012. Miklir efnahagslegir og pólitískir hagsmunir eru fólgnir í að ná markmiðum til lengri og skemmri tíma á sem árangursríkastan og hagkvæmastan hátt, en innviðir loftslagsmála eru nú fremur veikir og greining á mögulegum aðgerðum er á frumstigi. Ég geri mér vonir um að sú vinna sem nú fer fram í tveimur nefndum sem ég skipaði muni nú á vordögum varpa ljósi á raunhæfar aðgerðir til framtíðar. Efling rannsókna, greiningar og aðgerða í loftslagsmálum auðvelda stjórnvöldum að móta samningsmarkmið og framfylgja þeim síðan. Ísland hefur burði til að vera meðal fremstu ríkja heims í baráttunni gegn loftslagsbreytingum, en til að sú verði raunin þarf að móta skýra sýn og raunhæfa áætlun um minnkun losunar frá helstu uppsprettum, aukna bindingu kolefnis og mögulega loftslagsvæna þróunaraðstoð. Mörg býn verkefni eru framundan í loftslagsmálum sem Umhverfisstofnun mun taka þátt í, s.s. eflt loftslagsbókhald og uppsetning skráningarkerfis fyrir heimildir.

Ég hef í vetur lagt fram á Alþingi nokkur frumvörp sem varða verkefni Umhverfisstofnunar með einum eða öðrum hætti. Með frumvarpi til laga um um breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs er innleidd tilskipun um raf- og rafeindabúnaðarúrgang. Frumvarpið byggir á meginreglunni um framleiðendaábyrgð og er gert ráð fyrir að framleiðendur og innflytjendur raf- og rafeindatækja muni bera fjárhagslega ábyrgð á rekstri kerfis um úrvinnslu raf- og rafeindatækjaúrgangs. Í frumvarpinu er lögð áhersla á skýra skiptingu milli ábyrgðarsviðs sveitarfélaga annars vegar og framleiðanda og innflytjanda hins vegar. Sveitarfélögin eiga að bjóða á söfnunarstöðvum sínum upp á gáma fyrir móttöku á raf- og rafeindatækjaúrgangi. Frumvarpið gerir ráð fyrir að það sé hins vegar alfarið framleiðenda og innflytjenda að bera ábyrgð á annarri meðhöndlun raf- og rafeindaúrgangs og öðrum kostnaði við rekstur kerfisins. Jafnframt liggur fyrir frumvarp til innleiðingar á svokallaðri REACH reglugerð eða reglugerð um skráningu, mat, leyfisveitingu og takmarkanir, að því er varðar efni og efnavörur. Markmið reglugerðarinnar er annars vegar að tryggja að meðferð á efnum valdi ekki tjóni á heilsu manna og dýra eða á umhverfi, og hins vegar að tryggja frjálst flæði á efnum og efnavörum sem uppfylla kröfur löggjafarinnar. Þetta sýnir hversu Evrópulöggjöfin er orðin stór þáttur í löggjafarþróun hér á landi en verkefni Umhverfisstofnunar við að framfylgja þeirri löggjöf er mjög þýðingarmikill þáttur í starfsemi stofnunnarinnar og fer vaxandi. Einnig hef ég nýlega mælt fyrir breytingu á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fulgum og dýrum þar sem m.a. kveðið er með skýrum hætti á um skyldu á skilum veiðiskýrslna og úrræði til að framfylgja þeirri skyldu. Þá liggja fyrir á Alþingi frumvörp til nýrra skipulagslaga og laga um mannvirki þar sem gert er ráð fyrir töluverðum breytingum á stjórnsýslu og framkvæmd þessara málaflokka m.a. að samþætt verði bruna- og mannvirkjamál undir undir nýrri stofnun Byggingastofnun. Í frumvarpi til skipulagslaga er gert ráð fyrir að stjórnvöld leggi fram stefnu sína í skipulagsmálum þar sem áætlanagerð stjórnvalda sem varðar landnotkun er samþætt í svokallaðri landsskipulagsáætlun. Henni er ætlað að leggja fram stefnmótun um landnotkun á landsvísu sem varðar almannaheill og að samræma opinberar áætlanir á landsvísu. Fyrsta landsskipulagsáætluninni er ætlað að vera heildstæð stefnumótun stjórnvalda fyrir miðhálendi Íslands sem verði undirstaða skipulagsvinnu á hálendinu. Þessa stefnmótun er nátengd vinnu við rammáætlun um vernd og nýtingu sem ég nefndi hér áður.

Ég skipaði í vetur nefnd til að gera tillögur um aðgerðir til að draga úr úrgangi og auka endurvinnslu á dagblöðum, tímaritum og öðrum prentpappír. Mun nefndin skila af sér fyrir 1. júlí nk en hlutverk hennar er að gera tillögur um aðgerðir til að draga úr úrgangi, auka endurvinnslu á dagblöðum, tímaritum og prentpappír sem kemur í söfnunarstöðvar sveitarfélaga, í grenndargáma og með heimahirðu almenns heimilisúrgangs, og kanna mögulegar lausnir s.s. með því að koma á framleiðendaábyrgð á þessar vörur. Þá hefur verið að störfum nefnd til að endurskoða auglýsingu um umbyggingu gjaldskrár heilbrigðiseftirlitssvæða. Verkefni starfshópsins eru m.a. að greina kostnaðarþætti sem hún byggir á og meta hlut samfélagsþjónustu í heilbrigðiseftirliti. Nauðsynlegt er að samræma sem best grunn gjaldtöku og að gjaldtakan sé gagnsæ og forsendur hennar ljósar. Lögð er áhersla á að samræma flokkun á eftirlitsskyldri starfsemi. Þessi vinna er vel á veg komin. Þá er fyrirhugað að endurskoða hollustuháttareglugerð og verður þar nýtt sú vinna sem framangreindur starfshópur um uppbyggingu gjaldskrár heilbrigðiseftirlits vinnur að um flokkun á eftirlitsskyldri starfsemi. Nefnd sem vinnur að frumvarpi til laga um fráveitur mun fljótlega ljúka störfum en í frumvarpinu verða m.a. settar reglur um starfrækslu fráveitna og skyldur þeirra. Þá hef ég nýlega skipað starfshóp til að endurskoða lög um dýravernd þar sem m.a. er ætlunin að taka á stjórnsýslu dýraverndarmála þannig að hún sé skýr.

Mikið starf hefur verið unnið í Umhverfisstofnun undanfarin misseri að því að greina verkefni stofnunarinnar ítarlega og móta henni stefnu til framtíðar. Að þessu mikilvæga verkefni hafa fjölmargir aðilar komið, starfsfólk stofnunarinnar og helstu viðskiptavinir hennar. Ég veit að í þessari vinnu lögðu allir gjörva hönd á plóginn til að hún gæti skilað sér í enn öflugri stofnun með skýra framtíðarsýn. Nýtt skipurit var sett fyrir stofnunina um síðustu áramót og tel ég að þar hafi tekist vel til að samþætta verkefni stofnunarinnar og auka á skilvirkni í störfum hennar. Ég tel þessa vinnu stofnunarinnar til fyrirmyndar og vil þakka ykkur - því góða starfsfólki sem vinnur hjá stofnuninni - fyrir hana. Töluverðar breytingar hafa orðið á yfirstjórn Umhverfisstofnunar en í febrúar sl. var skipaður nýr forstjóri stofnunarinnar, Kristín Linda Árnadóttir, eftir að Ellý Katrín Guðmundsdóttir þáverandi forstjóri hætti störfum. Ég geri mér grein fyrir að sú breyting og aðrar breytingar á starfsliði stofnunarinnar að undanförnu hafa verið erfiðar fyrir starfsfólk, sérstaklega þar sem nýtt skipurit hafði nýlega tekið gildi þegar breytingarnar áttu sér stað. Ég horfi hins vegar mjög björtum augum til Umhverfisstofnunar og veit að nýr öflugur forstjóri hefur tekið við keflinu og mun leiða hana áfram af festu. Ég vil bjóða Kristínu Lindu velkomna til starfa og hlakka til samstarf við hana og ykkur öll á komandi árum.

Ég vil að lokum árna Umhverfisstofnun allra heilla í framtíðinni í sínum mikilvægu störfum fyrir náttúru landsins og umhverfi.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum