Hoppa yfir valmynd

Frétt

4. apríl 2008 Innviðaráðuneytið

Samstarfssáttmáli undirritaður á fundi ríkis og sveitarfélaga

Árlegur samráðsfundur ríkis og sveitarfélaga var haldinn í vikunni. Á fundinum var m.a. fjallað um fjármálareglur fyrir sveitarfélögin og breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Fundurinn var haldinn á Grand Hótel í Reykjavík og hann sátu samgönguráðherra, fjármálaráðherra og stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, ásamt starfsmönnum. Þetta var fyrsti samráðsfundur samgönguráðherra eftir að hann tók við yfirstjórn sveitarstjórnarmála um síðustu áramót.

Árlegur samráðsfundur ríkis og sveitarfélaga var haldinn í vikunni. Á fundinum var m.a. fjallað um fjármálareglur fyrir sveitarfélögin og breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Fundurinn var haldinn á Grand Hótel í Reykjavík og hann sátu samgönguráðherra, fjármálaráðherra og stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, ásamt starfsmönnum. Þetta var fyrsti samráðsfundur samgönguráðherra eftir að hann tók við yfirstjórn sveitarstjórnarmála um síðustu áramót.

Á grundvelli sveitarstjórnarlaga hafa ríki og sveitarfélög unnið eftir sérstökum samstarfssáttmála og var nýr sáttmáli undirritaður á fundinum. Það nýmæli er að finna í samstarfssáttmálanum að sérstök samstarfsnefnd verður sett á laggirnar. Henni er ætlað að ræða með hvaða hætti er unnt að bæta verkferla og samskipti þessara stjórnsýslustiga. Til hennar er hægt að vísa umfjöllun um stefnumál ríkisstjórnarinnar sem hafa í för með sér nýja löggjöf, eða reglur, er snerta sveitarfélög, álitamál um kostnaðarskiptingu og kostnaðaráhrif nýrra laga og reglugerða gagnvart sveitarfélögum.

Kristján L. Möller samgönguráðherra lýsti yfir á fundinum ánægju með þessa niðurstöðu: "Ég bind miklar vonir við að þessi nýi vettvangur skapi okkur betra tækifæri til að ræða einstök samskiptamál sem uppi eru hverju sinni, hvort sem um er að ræða fjármálaleg samskipti eða önnur," sagði Kristján.

Þá var til umræðu viljayfirlýsing ríkis og sveitarfélaga sem undirrituð var fyrir um ári síðan. Þar var kveðið á um að ríki og sveitarfélög myndu vinna saman að mótun tillagna um fjármálareglur fyrir sveitarfélögin og bætta upplýsingaöflun. Markmið slíkra reglna er að skapa betri tengsl á milli fjármála sveitarfélaga og ríkisfjármála er varðar almenna hagsjórn. Í viljayfirlýsingunni var ennfremur kveðið á um, að ríkið sé tilbúið til að skoða leiðir til að koma að lækkun skulda þeirra sveitarfélaga sem tækju upp slíkar reglur.

Unnið hefur verið að hugmyndum um fjármálareglum á þessum grundvelli og var greinargerð lögð fram á fundinum. Fjögurra manna nefnd undir forystu Sambands íslenskra sveitarfélaga mun vinna áfram að mótun slíkra relgna og meta, hvernig sveitarfélögin geta samþætt þær við áætlanagerð og fjármálastjórn. Nefndinni er ætlað að skila tillögum fyrir 1. júlí næstkomandi.

Á fundinn kom jafnframt fulltrúi félags- og tryggingamálaráðherra og kynnti stöðu og framvindu verkefnis sem í gangi hefur verið og miðar að því að flytja málefni fatlaðra og öldrunarþjónustu til sveitarfélaganna.

Sjá nánar: Samstarfssáttmáli ríkis og sveitarfélaga (PDF - 41 kb).



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum