Hoppa yfir valmynd

Frétt

18. apríl 2008 Dómsmálaráðuneytið

Áfangaskýrsla um mat á breytingum á nýskipan lögreglu

Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi í morgun áfangaskýrslu um mat á breytingum á nýskipan lögreglu.

Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi í morgun áfangaskýrslu um mat á breytingum á nýskipan lögreglu. Skýrsluna vann nefnd sem ráðherra skipaði í apríl á síðasta ári til að meta með hvaða hætti markmið um aukna og eflda löggæslu hefði náð fram að ganga. Í niðurstöðum hennar kemur m.a. fram að með góðum undirbúningi, nýjum reglugerðum og skipuritum hafi breytingarnar gengið vel og ekki valdið röskun á löggæslu. Almennt hafi sveigjanleiki aukist og áherslur í löggæslu breyst.

Meginmarkmið með nýskipan lögreglumála, sem tók gildi 1. janúar 2007, var að efla löggæslu í landinu með því að auka sýnileika lögreglu, auka gæði og hraða rannsóknum mála. Í áfangaskýrslunni er leitast við að leggja hlutlægt mat á áhrif breytinganna. Byggt er á tölfræðilegum gögnum um skipulag og framkvæmd löggæslu á árinu 2007. Brugðið er mælistiku á kostnað og útgjöld, sem hafa aukist jafnt og þétt hin síðari ár.

Nefndina skipa Þórunn J. Hafstein, skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneyti, formaður, Sigríður Björk Guðjónsdóttir aðstoðarríkislögreglustjóri, tilnefnd af Lögreglustjórafélagi Íslands, og Sveinn I. Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, tilnefndur af landssambandinu, en varamaður hans er Steinar Adolfsson framkvæmdastjóri.

Í skýrslu nefndarinnar eru hugmyndir og tillögur sem dóms- og kirkjumálaráðherra hefur ákveðið, að teknar verði til skoðunar, fylgt eftir með umræðum og síðan aðgerðum. Í niðurstöðum skýrslunnar er m.a. að finna eftirfarandi atriði:

  • Nefndin telur tímabært að huga að heildarendurskoðun lögreglulaga, þar sem lögð verði áhersla á að skilgreina hlutverk lögreglu, inntak og mörk lögregluvalds, valdbeitingarheimildir og rannsóknarheimildir lögreglu, varalið og forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu, það er öryggis- og greiningarþjónustu.
  • Nefndarmenn telja að breytingin hinn 1. janúar 2007 hafi ekki verið nægilega róttæk til að tryggja bestu nýtingu mannafla innan lögreglunnar alls staðar á landinu. Sum lögreglulið séu mjög fámenn, hlutfall stjórnenda sé í velflestum liðum hátt og markmið um sérstakar rannsóknardeildir hafi ekki fyllilega gengið eftir.
  • Nefndin telur að meiri stækkun lögregluembætta geti enn aukið slagkraft lögregluliða til að markmiðunum, sem sett voru með breytingunum 1. janúar 2007, verði náð.
  • Nefndin bendir á að endurskoða þurfi inntak starfsstiga, samkvæmt ákvæðum reglugerðar um starfsstig innan lögreglunnar, svo að skilgreiningin endurspegli raunverulega verkaskiptingu.
  • Nefndin telur rétt, að hugað verði að þróun reiknilíkans til að auka gegnsæi við greiðslu á löggæslukostnaði úr ríkissjóði og stuðla að því að inntak löggæsluþjónustu sé skilgreint.
  • Nefndin telur óhjákvæmilegt, að lögreglustjórum verði gert kleift að sinna eingöngu lögreglustjórn og huga beri að því, hvort leggja eigi lögfræðimenntun lögreglustjóra til jafns við stjórnunarreynslu innan lögreglu og stjórnunarmenntun við val á lögreglustjórum.  Þá telur nefndin jafnframt, að stjórnendur eigi að sjá til þess að menntaðir lögreglumenn sinni eingöngu störfum sem falla undir eiginleg löggæslustörf og starfsfólk með annars konar menntun sinni öðrum störfum hjá lögregluembættum.
  • Nefndin mælir með því að aukin áhersla verði lögð á að umbuna einstökum lögreglumönnum vegna árangurs í starfi og persónulegra eiginleika frekar en hækka þá um starfsstig. 
  • Nefndin mælir með því að hugað verði að nýrri skipan lögreglurannsókna. Hinar sérstöku rannsóknardeildir, sem ætlað sé að þjóna öðrum umdæmum, verði lagðar niður og rannsóknarstörf lögreglu verði færð í fyrra horf og undir stjórn lögreglustjóra innan hvers umdæmis. Slíkt útiloki þó ekki að sérhæfing myndist í einstökum umdæmum, í samræmi við markmið breytinganna.

 

Sjá áfangaskýrsluna hér (pdf-format)

 

 

Reykjavík 18. apríl 2008



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum