Hoppa yfir valmynd

Frétt

28. apríl 2008 Utanríkisráðuneytið

Þróun stjórnmála í Suður Afríku: Umbrotatímar í ungu lýðveldi

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir
Sigríður Dúna Kristmundsdóttir

Miðvikudaginn 30. apríl næstkomandi heldur Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, sendiherra Íslands í Suður-Afríku, fyrirlestur um þróun stjórnmála í Suður-Afríku. Fyrirlesturinn hefst kl.12:15 í stofu 101, Háskólatorgi. Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands stendur fyrir fyrirlestrinum í samstarfi við utanríkisráðuneyti Íslands.

Í fyrirlestrinum er fjallað um stjórnmálaþróunina í Suður-Afríku og áhrif hennar á þróun mála í nágrannaríkjunum. Ýmis lýðræðisleg umbrot eiga sér nú stað í Suður-Afríku , m.a. innan Afrísku þjóðarfylkingarinnar, sem hefur setið við stjórnvölinn í Suður-Afríku frá því að aðskilnaðarstjórn hvítra leið undir lok árið 1994.

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir er flestum Íslendingum kunn en hún sat á Alþingi fyrir Kvennalista árin 1983-1987 og er prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands. Þá sat hún í stjórn Þróunarsamvinnustofnunar Íslands árin 1989—1993, í stjórn Mannfræðistofnunar Háskóla Íslands frá 1989, sérfræðinganefnd Ráðherranefndar Norðurlanda um umhverfisrannsóknir í félagsvísindum síðan 1991 og í ráðgjafanefnd framkvæmdastjóra UNESCO um málefni kvenna síðan 1994. Hún var í ritstjórn NORA, Nordic Journal of Women’s Studies, árin 1991-1995. Þá hafa birst fjölda greina eftir Sigríði Dúnu á sviði mannfræði og þjóðfélagsmála í gegnum árum. Hún var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf sín að jafnréttismálum árið 2000. Sigríður Dúna hefur stundað rannsóknir í Afríku og haldið þar erindi á ráðstefnum um rannsóknir sínar.

Eftir fyrirlesturinn gefst fundarmönnum tækifæri til að spyrja Sigríði Dúnu nánar út í efni hans og málefni ríkja í sunnanverðri Afríku.

Fyrirlesturinn fer fram á íslensku og er opinn öllum. Aðgangur ókeypis. Sjá einnig á http://www.hi.is/ams



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum