Hoppa yfir valmynd

Frétt

29. maí 2008 Utanríkisráðuneytið

Íslensk stjórnvöld fagna alþjóðlegu banni við klasasprengjum

Íslensk stjórnvöld fagna alþjóðlegu samkomulagi sem tókst í Dyflinni í gær um að banna klasasprengjur. Slíkar sprengjur skapa hættur fyrir milljónir manna, fyrst og fremst óbreytta borgara,. Þær hafa m.a. verið notaðar í Afganistan, Írak, Kósóvó, Nagornó Karabakh, Víetnam og Líbanon, þar sem sprengjusveit Landhelgisgæslunnar hefur verið við störf undanfarið við hreinsun á klasasprengjum.

Ísland hefur frá upphafi stutt gerð alþjóðlegs samnings gegn klasasprengjum og tekið þátt í samningaferlinu. Norðmenn áttu frumkvæði að gerð samningsins, í samvinnu við önnur ríki og samtök, þ. á m. Rauða krossinn. Samningaviðræðurnar fóru fram utan vébanda Sameinuðu þjoðanna, er voru studdar af aðalframkvæmdastjóra samtakanna, Ban Ki Moon. Fleiri en 100 ríki tóku þátt í ráðstefnunni, en stærstu vopnaveldin, Bandaríkin, Rússland og Kína, voru ekki þátttakendur í henni. Fjölmörg félagasamtök og stofnanir tóku þátt í samningaferlinu.

Oslóarferlið svokallaða um gerð samnings gegn klasasprengjum hófst í febrúar 2007. Samningafundir foru haldinir í Líma í Perú, Vín í Austurríki, Wellington á Nýja Sjálandi og nú í Dyflinni. Fulltrúi Íslands á fundinum var Guðmundur Eiríksson sendiherra.

Klasasprengjur eru vopnategund sem inniheldur margar smásprengjur sem hægt er að dreifa yfir stór svæði. Margar þeirra springa ekki og geta skaðað almenna borgara, ekki síst börn, mörgum árum eftir að átökum lýkur. Klasasprengjur hafa verið notaðar í ríflega fjóra áratugi í samtals 23 löndum. Yfir 70 ríki eiga klasasprengjur og 34 ríki framleiða slík vopn.

Mannúðarsjónarmið eru meginástæðan fyrir því að íslensk stjórnvöld leggjast gegn notkun klasasprengja. Engar klasasprengjur eru til á Íslandi, en íslensk stjórnvöld hafa kostað hreinsun á svæðum sem eru menguð af klasasprengjum, með hreinsunaraðgerðum sprengjusveitar Landhelgisgæslunnar, sem fyrr sagði.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum