Hoppa yfir valmynd

Frétt

29. maí 2008 Innviðaráðuneytið

Reglugerð um réttindi fatlaðra og hreyfihamlaðra farþega í flugi

Samgönguráðherra hefur sett reglugerð um réttindi fatlaðra og hreyfihamlaðra farþega í flugi. Með henni er innleidd reglugerð Evrópuþingsins og Evrópuráðsins sem snýst um réttindi fatlaðra og hreyfihamlaðra farþega sem fara um flugvelli og í flug flugrekenda með útgefið flugrekstrarleyfi innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Tekur gildi 26. júlí

Markmið reglugerðarinnar er að tryggja vernd og aðstoð við fatlaða og hreyfihamlaða einstaklinga sem ferðast í farþegaflugi innan Evrópska efnahags­svæðisins. Reglugerðinni er ætlað að sporna gegn mismunun gagnvart umræddum einstaklingum og tryggja að þeir fái aðstoð bæði á ferð sinni um flugvelli og um borð í flugvélum.

Rekstraraðili flugvallar ber ábyrgð á því að tryggja að fötluðum og hreyfihömluðum einstaklingum sé veitt aðstoð á flugvelli. Farþega ber við farskráningu að gera grein fyrir þörf sinni á aðstoð eða í síðasta lagi 48 klukkustundum fyrir brottför. Flugrekanda og/eða ferðaskrifstofu ber að koma beiðni farþega áfram til rekstraraðila flugvallar sem ábyrgð ber á því að veita aðstoðina.

Hugtakið fatlaður einstaklingur og hreyfihamlaður einstaklingur er mjög víðtækt. Það tekur til einstaklinga sem að því er varðar notkun flutningatækja, hafa skerta hreyfigetu sem rakin verður til líkamlegrar fötlunar (skertrar skynjunar eða hreyfigetu, varanlegrar eða tíma­bundinnar), greindarskerðingar eða annars konar fötlunar eða aldurs og býr við aðstæður sem krefjast þess að hann fái athygli og þjónustu, sem er sérstaklega sniðin að þörfum hans, þannig að hann fái sömu þjónustu og öllum öðrum farþegum stendur til boða.

Margvísleg aðstoð

Aðstoð við fatlaða og hreyfihamlaða einstaklinga felst meðal annars í að gera þeim kleift að:

- fara í gegnum innritun og öryggisleit á flugvelli;

- komast um borð í loftfar;

- koma farangri fyrir um borð í loftfari;

- ná tengiflugi á flugvelli;

- komast úr loftfari í gegnum landamæraeftirlit;

- fara í gegnum tollskoðun á komustað;

- endurheimta farangur á komustað.

Frekari aðstoð felst til dæmis í aðstoð við meðhöndlun og frágang hjálpartækja og stoðtækja, auk miðlunar nauðsynlegra upplýsinga.

Þessarar þjónustu skulu fatlaðir og hreyfihamlaðir njóta án þess að greiða gjald fyrir.

Ýmsar skyldur hvíla einnig á flugrekendum. Ber þeim að veita farþegum upplýsingar um flug á aðgengilegu sniði og upplýsingar um öryggisreglur sem gilda um flutning fatlaðra og hreyfihamlaðra einstaklinga ásamt takmörkunum á flutningi þeirra og stoðtækja.

Flugrekendum er ætlað að flytja stoð- og lækningartæki fyrir fatlaða eða hreyfihamlaða, þar með talda rafmagnshjólastóla. Flutningur stoð- og lækningartækja er þó háður því að tilkynning um ætlaðan flutning hafi borist innan settra tímamarka og laust sé pláss í loftfarinu.

Þá er flugrekanda ætlað að útvega fylgdarmanni sæti við hlið fatlaðs eða hreyfihamlaðs einstaklings, sé það mögulegt. Þá skal flugrekandi ennfremur gera nauðsynlegar ráðstafanir til að aðlaga sæti fatlaðs og hreyfihamlaðs einstaklings, sé þess óskað, þó með fyrirvara um öryggiskröfur og að slíkt sæti sé tiltækt.

Synjun um flutning

Flugrekandi, umboðsmaður hans eða ferðaskrifstofa skal ekki synja farþega á grundvelli fötlunar eða hreyfihömlunar um farskráningu í flug til eða frá flugvelli hér á landi og að fara um borð í loftfar á flugvelli hér á landi, enda hafi farþegi gilda farskráningu og farseðil.

Þó er flugrekanda heimilt að synja um farskráningu í flug eða synja farþega að fara um borð í flugvél á grundvelli fötlunar eða hreyfihömlunar þar sem flugöryggiskröfur krefjast þess eða þegar stærð loftfarsins, dyr þess eða aðstæður á meðan flutningi stendur koma í veg fyrir það. Synji flugrekandi fötluðum eða hreyfihömluðum farþega um farskráningu eða að fara um borð í loftfar skal hann greina honum frá ástæðum þess.

Meðferð kvartana

Fatlaður og hreyfihamlaður einstaklingur, sem telur að brotið hafi verið gegn ákvæðum þessarar reglugerðar, á að geta vakið athygli framkvæmdastjórnar flugvallar eða viðkomandi flugrekanda á máli sínu, eftir atvikum. Ef hann fær ekki lausn sinna mála eftir slíkum leiðum er honum frjálst að senda kvörtun til Flugmálastjórnar Íslands eða samsvarandi eftirlitsaðila í því ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins sem málið varðar. Eftirlit Flugmálastjórnar Íslands hefur ekki áhrif á rétt fatlaðra og hreyfihamlaðra einstaklinga til að leita réttar síns hjá dómstólum samkvæmt landslögum.

Sjá má reglugerðina og fylgiskjal hér.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum