Hoppa yfir valmynd

Frétt

30. maí 2008 Utanríkisráðuneytið

Yfirlýsing ríkisstjórnar Íslands við samþykkt samningsins um klasasprengjur, Dyflinni, 30. maí 2008

Þótt mörg ákvæði samningsins beri með sér að nauðsynlegt hafi reynst að komast að pólitískri málamiðlun í samningaviðræðunum hafa hlutaðeigandi ríki, með því að samþykkja að gera lagalega bindandi sáttmála, náð niðurstöðu sem lýtur reglum þjóðaréttar. Við túlkun sína og framkvæmd á samningnum munu samningsríkin því hafa reglur þjóðaréttar að leiðarljósi, einkum alþjóðlegs mannúðarréttar og alþjóðasamningaréttar, þ.m.t. hina altæku meginreglu um efndir í góðri trú (1969 Vínarsamningurinn um alþjóðasamningarétt, 26. gr.), samhliða reglum um ábyrgð ríkja, þ.m.t. um forsendur þess að geta rekið tilteknar aðgerðir til einstakra ríkja (t.d. greinar alþjóðalaganefndar Sameinuðu þjóðanna um ábyrgð ríkja, II. kafli).

Orðalagi 21. gr. um samskipti samningsríkja og ríkja sem eru ekki aðilar að samningnum var sérstaklega ætlað að leysa sérstök vandkvæði viðvíkjandi beitingu samningsins í tilvikum þar sem samningsríki tekur þátt í hernaðarsamvinnu við ríki sem er ekki aðili að samningnum. Í greininni er því beint til ríkja sem eru ekki aðilar að samningnum að taka þátt í því fyrirkomulagi sem samningurinn kveður á um en jafnframt felst í henni viðurkenning nauðsyn áframhaldandi samstarfs á aðlögunartímabili sem vonir standa til að verði stutt. Þessi áform koma skýrt fram í 3. mgr. greinarinnar sem eigi ber að túlka þannig að hún heimili samningsríkjum að færast undan því að rækja ákveðnar skyldur sínar samkvæmt samningnum í þessum takmarkaða tilgangi. Ekki má líta svo á að ákvörðun um að renna stoðum undir þessa afstöðu með því að tilgreina nokkur dæmi í 4. mgr. heimili frávik að öðru leyti.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum