Hoppa yfir valmynd

Frétt

30. júní 2008 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra sækir ráðherrafund EFTA

Ráðherrafundur EFTA í Lugano
Ráðherrafundur EFTA í Lugano

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, sat í dag ráðherrafund Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) í Lugano í Sviss. Í fyrsta skipti í sögu EFTA eru allir ráðherrarnir sem bera ábyrgð á málefnum EFTA í sínum ríkjum konur. Ráðherrarnir ræddu samskipti EFTA við Evrópusambandið (ESB) og við ýmis önnur ríki en EFTA-ríkin hafa lagt aukna áherslu á gerð fríverslunarsamninga með það að markmiði að búa viðskiptalífi í löndum sínum bestu samkeppnisskilyrði í alþjóðaviðskiptum sem völ er á.

Ráðherrarnir lýstu ánægju með gildistöku fríverslunarsamnings EFTA-ríkjanna og tollabandalags Suður-Afríkuríkja, SACU, 1. maí 2008, svo og undirritun fríverslunarsamnings við Kanada fyrr á þessu ári en vonast er til að hann geti tekið gildi í upphafi næsta árs. Þá er fríverslunarviðræðum lokið við ríki Flóabandalagsins (Barein, Kúveit, Óman, Katar, Sádí-Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmin) og búist er við að samningurinn við þau verði undirritaður fyrir lok þess árs.

Í tengslum við ráðherrafundinn í Lugano var fundað með viðskiptaráðherra Kólumbíu, en fríverslunarviðræðum Kólumbíu og EFTA-ríkjanna lauk fyrr í þessum mánuði. Lögðu ráðherrarnir áherslu á að samningurinn yrði undirritaður sem fyrst.

EFTA-ríkin og Indland hafa ákveðið að hefja viðræður um fríverslunarsamning og er stefnt að því að fyrsta viðræðulota verði í haust. Jafnframt ákváðu ráðherrarnir að undirbúa fríverslunarviðræður við Rússland, Úkraínu, Serbíu og Albaníu. Þá standa vonir til að samningaviðræður við Taíland geti hafist að nýju og að hægt verði að hefja viðræður við Indónesíu.

Ráðherrarnir lýstu ánægju með rekstur EES-samningsins en EFTA-ríkin hafa tekið margar viðamiklar gerðir ESB upp í EES-samninginn, s.s. á sviði matvæla, að því er varðar efnalöggjöf ESB og löggjöf um viðskipti með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda. Þá ræddu ráðherrarnir orku- og loftslagsstefnu Evrópusambandsins, svo og löggjöf sem nú er í undirbúningi á því sviði. Í henni felast bæði áskoranir og tækifæri og lýstu ráðherrarnir yfir ánægju með forystu ESB í að koma á viðskiptakerfi með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda en utanríkisráðherra lagði áherslu á að tekið yrði tillit til landfræðilegrar legu Íslands þegar flugrekstur verður felldur undir viðskiptakerfið. Ingibjörg Sólrún gerði grein fyrir nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og sagði Íslendinga hafa mikið fram að færa á alþjóðavettvangi í þessum málaflokki.

Að frumkvæði utanríkisráðherra var ákveðið að styrkja aðkomu sveitastjórna að málefnum EFTA.

Framtíð Lissabonsamningsins bar á góma, svo og viðræður við ESB um framlög vegna þróunarsjóðs EES.

Yfirlýsingu ráðherrafundarins er að finna á þessari slóð: http://www.efta.int/ministerial-meeting-lugano

Myndir frá fundinum eru á slóðinni: http://www.efta.int/content/about-efta/press-room/photography-service/ministerial-lugano



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum