Hoppa yfir valmynd

Frétt

8. júlí 2008 Heilbrigðisráðuneytið

Rammasamningur um þjónustu heimilislækna utan heilsugæslustöðva

Samninganefnd heilbrigðisráðherra (SHBR) og samninganefnd Læknafélags Íslands hafa gert rammasamning um þjónustu heimilislækna á læknastofum utan heilsugæslustöðva til fimm ára. Á grundvelli samningsins er stefnt að útboði á rekstri læknastofu þriggja til fimm heimilislækna á höfuðborgarsvæðinu síðar á árinu. Samningurinn á sér langan aðdraganda, en meginmarkmið hans er að efla heilsugæslu og heimilislækningar sem undirstöðu heilbrigðisþjónustu á Íslandi.

Með samningnum er ætlunin að bæta aðgengi sjúklinga að grunnþjónustu heilbrigðiskerfisins, en einnig að gera stjórnvöldum og veitendum þjónustunnar kleift að bregðast skjótar en áður við breyttum aðstæðum og nýjum áherslum. Þannig er samningnum ætlað að bæta þá þjónustu sem í boði er á hverjum tíma, auka svigrúm til fjölbreytilegri rekstrarforma og auðvelda útfærslu heilbrigðisþjónustunnar eins og henta þykir hverju sinni.  Með því að efla grunnþjónustuna er jafnframt leitast við að styrkja stöðu þeirra sem sérhæfa sig í heimilislækningum.   

Samningurinn miðast við að þrír eða fleiri heimilislæknar myndi teymi um faglegt samstarf og rekstur heilsugæslu- og læknastöðvar.  Þjónustan sem samningurinn tekur til skal að jafnaði unnin á læknastofu heimilislæknis sem hlotið hefur sérfræðiviðurkenningu heilbrigðisstjórnar í heimilislækningum.  Ákvæði í samningnum er þó ætlað að auðvelda læknum að sinna vitjunum, þ.e. sjúklingum sem ekki eiga heimangengt.

Sambærilegar kröfur munu gerðar til læknastöðva og lækna sem vinna eftir þessum samningi og gerðar eru í hinu opinbera heilsugæslukerfi.  Miðað er við að sjúklingar velji lækni og að hann geti stöðvað skráningu sjúklinga á sig þegar þeir verða 1.500.  Réttur sjúklings til að skipta um lækni er að öðru leyti tryggður.  Þeir eiga að geta leitað til síns læknis með komu á stöð, í gegnum síma eða með tölvupósti og fengið viðunandi úrlausn samdægurs.

Í sérstökum rekstrarsamningi er gert ráð fyrir að fyrirhuguð staðsetning stöðvarinnar og starfstími verði tiltekinn, svo og kveðið á um áherslu- og sérverkefni.  Þannig er opnað fyrir ákveðna sérhæfingu samhliða hinni almennu þjónustu.  Á grundvelli þjónustukannana skal stöð umbunað fyrir mjög góða þjónustu. 

Gert er ráð fyrir að frumkvæði að áhersluverkefnum geti ýmist komið frá stjórnvöldum eða rekstrararaðilunum.  Dæmi um möguleg áherslu- og sérverkefni er skólaþjónusta, tiltekið rannsóknarstarf, öldrunarþjónusta, þjónusta við hjartasjúklinga, þjónusta við börn með geðraskanir og þjónusta vegna áfengis- og vímuefnavandamála.  Með sérvekefnum tengdum þessum störfum gefst kostur á ákveðinni verkaskiptingu milli stöðva, sem aftur kallar á samstarf og samvinnu óháð því hvort um er að ræða opinberar heilsugæslustöðvar eða stöðvar sem starfa skv. sérstökum þjónustusamningum. 

Ef vel tekst til með fyrirhugað útboð á grundvelli rammasamningsins eru vonir við það bundnar að hann geti orðið grundvöllur að endurnýjuðum samningum við þá sjálfstætt starfandi heimilislækna sem í dag starfa skv. sérstökum samningum. Rammasamningurinn sjálfur leiðir ekki til útgjaldaaukningar.

Á vegum samninganefndar heilbrigðisráðherra er unnið að gerð sambærilegs rammasamnings við sjálfstætt starfandi hjúkrunarfræðinga. Undirbúningsverkefni í samstarfi við lungnadeild LSH er að ljúka og er stefnt að rammasamningi um þjónustuna fyrir áramót. Heimaþjónustu við langveika lungnasjúklinga er ætlað að bæta líðan og getu þeirra til að lifa með sjúkdóminn. Henni er jafnframt ætlað að fækka sjúkrahússinnlögnum og stytta legutíma. Kjarni þjónustunnar er sérhæfð hjúkrun sem fyrirhugað er að teymi hjúkrunarfræðinga tryggi með rekstri sjálfstæðrar hjúkrunarstofu.

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum