Hoppa yfir valmynd

Frétt

11. júlí 2008 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðuneytið gengur til samninga um rekstur ljósleiðara NATO

Utanríkisráðuneytið hefur ákveðið að ganga til samninga við fyrirtækin Fjarska ehf. og Og fjarskipti ehf. um rekstur tveggja ljósleiðara Atlantshafsbandalagsins (NATO) á Íslandi.

Markmið ráðuneytisins með útleigunni er að draga úr kostnaði vegna viðhalds og reksturs ljósleiðara Atlantshafsbandalagsins, auka aðgengi almennings að háhraðatengingum, einkum úti á landi, og stuðla að aukinni samkeppni í gagnaflutningum á innanlandsmarkaði.

Í kjölfar auglýsingar Ríkiskaupa bárust fimm verkefnatillögur frá fjórum fyrirtækjum. Með hliðsjón af framangreindum markmiðum var hannað sérstakt stigakerfi til að nota við mat á tillögunum og var hópi sérfræðinga falið að annast matið. Áðurnefnd fyrirtæki hlutu flest stig og hefur utanríkisráðuneytið ákveðið að ganga til samninga við þau um rekstur hvors ljósleiðara fyrir sig.

Í umsögn Ríkiskaupa um tillögu Fjarska ehf. segir að tillagan sé vel skilgreind og uppfylli allar kröfur um upplýsingar um verkið og uppbyggingu þjónustunnar. Tilboð Fjarska hlaut samtals 92,18 stig og hljóðar upp á 20.000.000 kr.

Í umsögn Ríkiskaupa um tillögu Og fjarskipta ehf. segir að tillagan sé vel unnin og uppfylli allar kröfur um upplýsingar. Tilboð Og fjarskipta hlaut samtals 89,67 stig og hljóðar upp á 19.150.000 kr.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum