Hoppa yfir valmynd

Frétt

23. júlí 2008 Innviðaráðuneytið

Nýjar reglur um aðstoð við fatlaða og hreyfihamlaða sem ferðast með flugi

Sett hefur verið reglugerð um aðstoð við fatlaða og hreyfihamlaða farþega í flugi. Er henni ætlað að tryggja að rekstraraðilar flugvalla og flugrekendur veiti þessum farþegahópi nægilega aðstoð og sporna þannig gegn mismunun gagnvart þeim.


Reglugerðin, sem tekur gildi næstkomandi laugardag, 26. júlí, er innleiðing á reglugerð Evrópuþingsins og Evrópuráðsins nr. 1107/2006 frá 5. júlí 2006 um réttindi fatlaðs og hreyfihamlaðs fólks sem ferðast með flugi. Reglugerðin tekur til flugs innan landa Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins.

Fyrirkomulag aðstoðar

Nauðsynlegt er að farþegar sem óska aðstoðar á flugvelli eða í flugvél láti vita af þeirri þörf þegar gengið er frá pöntun flugfars. Ber flugrekanda og eða ferðaskrifstofu að koma beiðni farþega áfram til rekstraraðila flugvallar sem ábyrgð ber á því að veita aðstoðina.

Aðstoð við fatlaða og hreyfihamlaða einstaklinga felst m.a. í að gera þeim kleift að:

  • fara í gegnum innritun og öryggisleit á flugvelli;
  • komast um borð í loftfar;
  • koma farangri fyrir um borð í loftfari;
  • ná tengiflugi á flugvelli;
  • komast úr loftfari í gegnum landamæraeftirlit;
  • fara í gegnum tollskoðun á komustað; og
  • endurheimta farangur á komustað.

Frekari aðstoð felst til að mynda í aðstoð við meðhöndlun og frágang hjálpartækja og stoðtækja, auk miðlun nauðsynlegra upplýsinga.

Þessa þjónustu skulu fatlaðir og hreyfihamlaðir njóta án þess að greiða gjald fyrir. Ýmsar skyldur hvíla einnig á flugrekendum samkvæmt reglugerðinni. Flugrekendum ber að veita farþegum upplýsingar um flug á aðgengilegu sniði og upplýsingar um þær öryggisreglur sem gilda um flutning fatlaðra og hreyfihamlaðra einstaklinga ásamt takmörkunum á flutningi þeirra og stoðtækja.

Flugrekendum er ætlað að flytja stoð- og lækningatæki fyrir fatlaða eða hreyfihamlaða, þar með talda rafmagnshjólastóla. Flutningur stoð- og lækningatækja er þó háður því að tilkynning um ætlaðan flutning hafi borist innan settra tímamarka og að laust sé pláss í loftfarinu.

Þá er flugrekanda ætlað að útvega fylgdarmanni sæti við hlið fatlaðs eða hreyfihamlaðs einstaklings, sé það mögulegt. Flugrekandi skal ennfremur gera nauðsynlegar ráðstafanir til að aðlaga sæti fatlaðs og hreyfihamlaðs einstaklings, sé þess óskað, þó með fyrirvara um öryggiskröfur og að slíkt sæti sé tiltækt.

Synjun um flutning

Flugrekandi, umboðsmaður hans eða ferðaskrifstofa skal ekki synja farþega á grundvelli fötlunar eða hreyfihömlunar um farskráningu í flug til eða frá flugvelli hér á landi og að fara um borð í loftfar á flugvelli hér á landi, enda hafi farþegi gilda farskráningu og farseðil. Þó er flugrekanda heimilt að synja um farskráningu í flug eða synja farþega að fara um borð í flugvél á grundvelli fötlunar eða hreyfihömlunar þar sem flugöryggiskröfur krefjast þess eða þegar stærð loftfarsins, dyr þess eða aðstæður á meðan flutningi stendur koma í veg fyrir það. Synji flugrekandi fötluðum eða hreyfihömluðum farþega um farskráningu eða að fara um borð í loftfar skal hann greina honum frá ástæðum þess.

Þegar synja þarf farþega um flutning vegna þessa skal flugrekandi, umboðsmaður hans eða ferðaskrifstofa gera viðhlítandi ráðstafanir til að leggja farþega til viðunandi kost á flutningi. Fatlaður eða hreyfihamlaður einstaklingur sem neitað hefur verið um að fara um borð á grundvelli fötlunar eða hreyfihömlunar sem og fylgdarmaður viðkomandi einstaklings skal eiga rétt á endurgreiðslu eða að flugleið þeirra verði breytt eins og nánar er kveðið á um í reglugerð nr. 574/2005 um innleiðingu á reglugerð EB nr. 261/2004 um sameiginlegar reglur um skaðabætur og aðstoð til handa farþegum sem neitað er um far og þegar flugi er aflýst eða mikil seinkun verður og um að fella úr gildi reglugerð (EBE) nr. 295/91.

Úrræði og viðurlög

Flugmálastjórn Íslands er falið eftirlit samkvæmt reglugerðinni.

Fatlaður og hreyfihamlaður einstaklingur, sem telur að brotið hafi verið gegn ákvæðum þessarar reglugerðar, á að geta vakið athygli framkvæmdastjórnar flugvallar eða viðkomandi flugrekanda á máli sínu, eftir atvikum. Ef fatlaður eða hreyfihamlaður einstaklingur fær ekki lausn sinna mála eftir slíkum leiðum er honum frjálst að senda kvörtun til Flugmálastjórnar Íslands eða samsvarandi eftirlitsaðila í því ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins sem málið varðar.

Eftirlit Flugmálastjórnar Íslands hefur ekki áhrif á rétt fatlaðra og hreyfihamlaðra einstaklinga til að leita réttar síns hjá dómstólum samkvæmt landslögum.

Á slóðinni hér að neðan má sjá frétt á stuttu myndbandi Evrópusambandsins um réttindi fatlaðra í flugi. Velja má um nokkur tungumál.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum