Hoppa yfir valmynd

Frétt

12. ágúst 2008 Heilbrigðisráðuneytið

Árangur á einu ári

Frá því að ég tók við starfi heilbrigðisráðherra vorið 2007 hef ég lagt áherslu á að hlutverk heilbrigðisráðuneytisins eigi að vera fólgið í stefnumótun samhliða nauðsynlegum stjórnvaldsaðgerðum og eftirliti. Samhliða því hefur hlutverk ráðuneytisins í stefnumótun heilbrigðismála verið eflt.

Annað mikilvægt viðfangsefni, sem unnið var að sleitulaust frá því ég tók við og fram eftir síðasta vetri var skipting verkefna á milli heilbrigðisráðuneytis og félagsmála- og tryggingaráðuneytis.

Framangreindar breytingar á hlutverkum ráðuneytisins, voru viðamiklar en nauðsynlegur undanfari þeirrar vinnu sem undanfarnar vikur og mánuði hefur verið að skila árangri sem vert er að tilgreina hér. Rýmisins vegna er þó eingöngu hægt að stikla á stóru og margt því miður undanskilið í þessari yfirferð.

Lyfjasparnaður upp á milljarð

Þegar litið er yfir sviðið blasir við að kostnaður vegna lyfjamála vegur mjög þungt í útgjöldum til heilbrigðismála. Þess vegna lagði ég frá upphafi áherslu á þau mál. Vorið 2007 biðu mín þær fréttir að áætlaður lyfjakostnaður ríkisins stefndi í að verða 16% hærri en hann var árið áður. Þegar var hafist handa við að stemma stigu við þessari þróun og þegar upp var staðið reyndist hækkunin á milli áranna 2006 og 2007 verða 5%. Í krónum talið jukust þannig lyfjaútgjöld ríkisins um 350 milljónir á milli ára í stað 1.100 mkr. Meirihluta þessa sparnaðar upp á 750 mkr., eða um 400 mkr., má rekja til margvíslegra aðgerða heilbrigðisráðuneytis, lyfjagreiðslunefndar og lyfjafyrirtækja og 300 mkr. til hagstæðrar gengisþróunar á seinni hluta síðasta árs.

Í vor lækkaði Actavis verð á 20 samheitalyfjum hér á landi og vísaði talsmaður fyrirtækisins til nýrra lyfjalaga við það tækifæri, en þeim er einmitt ætlað að skapa skilyrði til að draga úr auknum lyfjaútgjöldum ríksins og lyfjakostnaði almennings með því að efla samkeppni og bæta þjónustu við neytendur. Áhrifin af þessari verðlækkun Actavis nema 120 milljónum króna og í kjölfarið lækkaði GlaxoSmithKline á Íslandi verð á fjórum tegundum frumlyfja.

Þegar með eru talin áhrif lyfjaútboðs 8 heilbrigðisstofnana frá því í vetur nemur sparnaður vegna lækkunar á lyfjakostnaði einum milljarði. Það munar um minna og við erum hvergi nærri hætt.

Sterkara BUGL

Annað mál sem að mínu mati þoldi enga bið var sú staða sem blasti við í málefnum barna og ungmenna með geðraskanir. Fyrir ári síðan samþykkti ríkisstjórnin tillögu mína um aukið fjármagn, 150 mkr., til styrktar starfsemi Barna- og unglingageðdeildar (BUGL). Áður hafði ég leitað eftir því að stjórnendur og starfsfólk BUGL kæmu með tillögur um aðgerðir í því skyni að efla starfsemi deildarinnar. Nú þegar hefur margt af því sem lagt var til í þessari aðgerðaáætlun gengið eftir og starfsemi BUGL eflst að sama skapi og mun fleiri fengið þjónustu en áður.

Bylting í augnsteinsaðgerðum

Í vor var gerður samningur um fjölgun augnsteinsaðgerða og almenningi gert auðveldar um vik um að komast í slíkar aðgerðir. Ekki eru mörg ár síðan að augnsteinsaðgerð tók yfir klukkutíma og kallaði á þriggja daga innlögn á sjúkahúsi, en í dag tekur hver aðgerð aðeins 10-15 mínútur og krefst ekki innlagnar sjúklinga. Í samræmi við þessa þróun sömdu heilbrigðisyfirvöld í maí sl. við augnlæknastofurnar Sjónlag hf. og LaserSjón ehf. í kjölfar útboðs um samtals 1.600 augnsteinsaðgerðir næstu 2 árin. Fram að því höfðu þessar aðgerðir eingöngu verið framkvæmdar á sjúkrahúsum hér á landi.

Sjúkrahúsin hafa ekki annað eftirspurn eftir augnsteinsaðgerðum undanfarin misseri, en með framangreindum samningum verður aðgerðum fjölgað um rúmlega 44%. Strax á næsta ári ætti því biðlisti eftir augnsteinsaðgerðum að heyra sögunni til.

Umsamið heildarverð fyrir hverja aðgerð er 77.800 kr sem er töluvert lægra en kostnaður LSH var vegna þessara aðgerða á síðasta ári. Þá er rétt að taka fram að kostnaðarhlutdeild sjúklinga er óháð því hver veitir þjónustuna og hvar – svo lengi sem viðkomandi þjónustuaðili er með samning við heilbrigðisyfirvöld.

Þetta er skólabókardæmi um þann árangur sem ég vil ná fram með því að skapa svigrúm til fjölbreytilegri rekstrarforma í heilbrigðisþjónustunni. Styttri bið og greiðari aðgangur að þjónustunni. Aukið val hinna sjúkratryggðu. Aukið aðhald að þeim sem veita þjónustuna. Lægri kostnaður hins opinbera. Aukið val fagfólks í heilbrigðisþjónustu varðandi starfsvettfang.Tækifæri sjúkrahúsanna til að nýta aðstöðu sína og mannafla til að efla frekar þá þjónustu sem þau ein geta veitt.

Öldrunarbiðlistum eytt

Annað mál sem brýnt var að taka strax á var að leysa vanda þeirra sjúklinga sem lent hafa á biðlistum þrátt fyrir brýna þörf fyrir vist á viðeigandi sjúkrastofnunum. Um árabil hefur Landspítalanum reynst erfitt að vinna á svokölluðum öldrunarbiðlistum, en þar er um að ræða inniliggjandi sjúklinga á spítalanum sem hafa fengið vistunarmat en bíða varanlegrar vistunar á hjúkrunarheimilum. Þetta hefur svo valdið því að sjúklingar sem þurfa á þjónustu spítalans að halda, hafa ekki komist að. Í febrúar sl. var tekið upp nýtt samræmt vistunarmatskerfi þar sem þeir sjúklingar sem eru í brýnni þörf og hafa beðið lengi ganga fyrir. Fréttamaður RÚV spurði Hildi Helgadóttur, innlagnastjóra Landspítalans, spurningar sem brann á mörgum við þessar fréttir: Af hverju var þetta kerfi ekki tekið upp fyrir löngu? Hildur svaraði því til að skoðun sín væru sú að það hefði fram að þessu ekki verið vilji til að stíga þetta skref og fagfólkið hefði ekki komist lönd né strönd.

Vandræði vegna öldrunarbiðlista heyra nú sögunni til. Nýja matið spilar þar stórt hlutverk sem og ,,Grundardeildin” sem tók til starfa á Landakoti um miðjan maí í kjölfar útboðs um rekstur á 18 rúma öldrunardeild. Samhliða þessu hafa auknir fjármunir verið lagðir í heimaþjónustu til að gera eldri borgurum kleift að vera eins lengi heima hjá sér og mögulegt er. Þá hefur frá því í mars sl. verið í gildi samningur á milli heilbrigðisyfirvalda og Heilsuverndarstöðvarinnar ehf um rekstur 20 skammtíma hvíldarrýma annars vegar og 30 dagvistarrýma með áherslu á endurhæfingu hins vegar. Um er að ræða tilraunaverkefni til sex mánaða og í ljósi góðrar reynslu af verkefninu er nú unnið að því að bjóða reksturinn út.

Raunverulegt bráðasjúkrahús

Áhersla heilbrigðisyfirvalda og stjórnenda Landspítala á að eyða biðlistum á öldrunardeildum hefur styrkt spítalann í sessi sem raunverulegt bráðasjúkrahús Íslendinga. Landspítalinn býr nú yfir nauðsynlegum sveigjanleika eftir að biðsjúklingar eftir varanlegri vistun eru ekki lengur stór hluti inniliggjandi sjúklinga. Þessi staðreynd varð heilbrigðisyfirvöldum ljós þegar Suðurlandsskjálftinn gekk yfir 29. maí sl. Ef þá hefði skapast neyðarástand hefði Landspítalinn verið í stakk búinn til að taka við rúmlega 50 sjúklingum frá jarðskjálftasvæðinu. Hefði slíkt neyðarástand komið upp í maí 2007 hefði Landspítalinn líklega ekki getað tekið við mikið fleiri en 10 sjúklingum með góðu móti. 

Að lokum

Ég er verulega stoltur af þeim árangri sem heilbrigðisyfirvöld og heilbrigðisstarfsfólk hafa náð á þeim tíma sem liðinn er frá því að Sjálfstæðisflokkurinn tók við lyklavöldum í heilbrigðisráðuneytinu. Ég hlakka líka til áframhaldandi vinnu við framgang þeirra markmiða sem tiltekin eru í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Þar má m.a. nefna aukið svigrúm til að nýta útboð og vel skilgreinda þjónustusamninga til að bæta þjónustu við skjólstæðinga heilbrigðisþjónustunnar, bæta aðgengi og ná fram betri nýtingu fjármagns í heilbrigðisþjónustu og fjölga þannig þeim dæmum sem ég hef rakið hér að framan.

 

Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum