Hoppa yfir valmynd

Frétt

20. ágúst 2008 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisráðherra Suður-Afríku í heimsókn

Elliði Vignisson, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Marthinus van Schalkwyk
Í Vestmannaeyjum

Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra átti fund með Marthinus van Schalkwyk, umhverfisráðherra Suður-Afríku í Þjóðmenningarhúsinu í Reykjavík fyrr í þessari viku. Meginefni fundarins voru loftslagsbreytingar og alþjóðlegar samningaviðræður um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Þær viðræður munu ná hámarki á Loftslagsþingi Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn haustið 2009.

Í lok fundarins hittu umhverfisráðherrarnir að máli Buyelwa Patience Sonjica, orkumálaráðherra Suður-Afríku. Markmið heimsóknar Suður-Afrísku ráðherranna var að kynna sér umhverfis- og orkumál hér á landi.

Að fundi loknum skoðuðu ráðherrarnir Surtseyjarsýninguna í Þjóðmenningarhúsinu. Þá fóru ráðherrarnir í heimsókn til Vestmannaeyja þar sem þeir hittu m.a. Elliða Vignisson, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum, að máli og ræddu m.a. um Surtsey og heimsminjaskrá UNESCO.

Suður-Afríka hefur að mörgu leyti tekið forystu meðal þróunarríkja á sviði loftslagsmála. Þannig hefur Marthinus van Schalkwyk lagt fram hugmyndir um hvernig draga megi úr losun gróðurhúsalofttegunda frá þróunarríkjum þannig að þau axli meiri ábyrgð, en með virkri aðstoð ríkari þjóða og í samvinnu við þær. Þá er hann talinn hafa gegnt veigamiklu hlutverki við að ná samkomulagi á Loftslagsþingi Sameinuðu þjóðanna í Balí á liðnu ári um áframhaldandi viðræður.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum