Hoppa yfir valmynd

Frétt

9. september 2008 Innviðaráðuneytið

Ýmsar skýringar á slysatíðni meðal ungra ökumanna

Þroski í heilastarfsemi, þjálfun, viðhorf, greining aðstæðna og skert hæfni til dæmis vegna vímuefna eru allt skýringar á slysatíðni ungra ökumanna í löndum OECD. Ungir ökumenn á Íslandi standa sig þokkalega vel í samaburði við önnur OECD lönd.

Frá fundi um áhættuhegðan ungra ökumanna
Frá fundi um áhættuhegðan ungra ökumanna

Þetta var meðal þess sem fram kom í dag á morgunverðarfundi Slysavarnarráðs, Umferðarráðs og Lýðheilsustöðvar um áhættuhegðan ungra ökumanna. Kristján L. Möller samgönguráðherra flutti ávarp og þrír sérfræðingar ræddu um unga ökumenn, slys og ökunám, þau Divera Twisk og Willen Vlakveld frá Hollandi og Holger Torp, verkefnastjóri ökunáms hjá Umferðarstofu.

Í ávarpi sínu sagði Kristján L. Möller meðal annars: ,,Ungum og óreyndum ökumönnum er hættara við að lenda í slysi en þeim sem lengri reynslu hafa og það er kannski ekkert skrýtið. Við þurfum þá einfaldlega að taka á því og íhuga hvað má bæta í þeim efnum. Með góðri ökukennslu og góðum undirbúningi undir þennan mikilvæga þátt í lífi okkar flestra er hægt að draga mjög úr þessari áhættu enda er það ávallt markmiðið að nýir ökumenn komi sem best undirbúnir út í raunveruleikann í umferðinni. Endurskoðun umferðarlaga, sem nú stendur yfir í samgönguráðuneytinu, felur einmitt í sér að farið er sérstaklega yfir þátt ökukennslu og ökunáms.”

Fram kom í máli hollensku sérfræðinganna að ungir ökumenn ættu hlutdeild í 27% umferðarslysa í OECD löndum en meðalhlutdeild allra ökumanna væri um 10%. Aukning hefði verið í sumum ríkjum Evrópu, ekki síst þar sem hagvöxtur og þensla hefðu ríkt. Þá sýndu þau tölur um að ungt fólk ætti frekar aðild að slysum að næturlagi um helgar en hinn almenni ökumaður en tíðnin væri svipuð og hjá þeim á virkum dögum. Meðal ástæðna fyrir hærri tíðni ungra ökumanna í slysum sögðu þau að væri að heilastarfsemin væri ekki orðin fullþroskuð og ungir ökumenn hefðu ekki reynslu eða færni til að meta aðstæður og áhættu.

Holger Torp sagði meðal annars að á síðasta ári hefðu gengið í gildi umbætur á ökunámi og að ökukennaranám hefði verið aukið og eflt. Tími bráðabirgðaskírteinis hefði verið lengdur í þrjú ár og leiddu 4 refsipunktar vegna umferðarlagabrots til akstursbanns og 7 punktar til sviptingar á þremur árum í stað tveggja áður. Í kjölfar þess yrðu nýliðar að fara á námskeið og taka ökupróf að nýju. Þetta væri ungum ökumönnum hvati til að standa sig vel enda fengi punktalaus ökumaður fullnaðarskírteini eftir 12 mánuði.

Holger sýndi tölur um akstursbann og taldi fyrstu tölur benda til árangurs. Á tímabilinu 1. október 2006 til 31. mars 2007 hefðu 340 ökumenn sætt akstursbanni en á sama tímabili 12 mánuðum síðar hefði fjöldinn lækkað í 153 ökumenn sem þýddi 55% fækkun. Mikil fækkun hefði orðið í hópnum sem sætti banni vegna punkta eða sviptingar en minnst í hópnum sem sætt hefði banni vegna ölvunaraksturs.

Þá kemur fram í samantekt frá Umferðarstofu að stórlega hafi dregið úr umferðarslysum af völdum karla á aldrinum 17 og 18 ára undanfarin ár enda hafi markvisst verið unnið að bættu ökunámi og forvörnum fyrir þann hóp ökumanna.

Hjálagt er ávarp samgönguráðherra á fundinum.

Á vef Umferðarstofu má sjá nánari umfjöllun um efnið.



      
Frá fundi um áhættuhegðan ungra ökumanna
Frá fundi Lýðheilsustöðvar, Slysavarnaráðs og Umferðaráðs um áhættuhegðan ungra ökumanna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum