Hoppa yfir valmynd

Frétt

17. september 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Flóttafólkið boðið velkomið

Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, bauð flóttakonurnar frá Al Walleed og börnin þeirra velkomin til landsins í móttöku sem bæjarstjórn Akraness hélt þeim í dag. Ráðherra sagði að hún dáðist að hugrekki og viljastyrk kvennanna sem hefðu þurft að mæta ótrúlegum erfiðleikum, ofbeldi og hættum undanfarin ár, búa við skelfilegar aðstæður í flóttamannabúðunum í Al Walleed og síðan að skiljast við nána ættingja í búðunum til að flytjast til fjarlægs lands. Ráðherra óskaði konunum og börnum þeirra gæfu og velfarnaðar í nýju landi. Hún sagði að flóttamönnum hefði almennt liðið mjög vel hér og orðið virkir þátttakendur í íslensku samfélagi. Ísland hefur tekið á móti flóttafólki í hópum allt frá árinu 1956 og á síðasta áratug hefur verið tekið á móti hópum nær árlega.

Fjölskyldurnar frá Al Walleed komu til landsins fyrir rúmri viku. Þetta eru átta konur og 21 barn. Fyrstu dagana hafa þær nýtt til að koma sér fyrir í íbúðunum sem biðu þeirra fullbúnar við komuna til Akraness, átta sig á nánasta umhverfi og tengjast stuðningsfjölskyldunum sem leiðbeina þeim og liðsinna á ýmsa lund.

Félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur yfirumsjón með móttöku flóttamannahópa og aðstoð og þjónustu við fólkið fyrsta árið en flóttamannanefnd sinnir framkvæmdinni í umboði stjórnvalda. Ráðherra þakkaði öllum þeim sem tekið hafa þátt í undirbúningi vegna komu flóttafólksins og sagðist sérstaklega ánægð með það góða samstarf sem fram færi milli flóttamannanefndar, Akranesbæjar og Rauða krossins.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum