Hoppa yfir valmynd

Frétt

29. september 2008 Heilbrigðisráðuneytið

Athugasemd frá heilbrigðisráðuneytinu

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu heldur því fram í grein í Morgunblaðinu að heilbrigðisráðherra hafi í ræðu á opnum fundi með sjálfstæðismönnum nýlega lofað 20% verðlækkun lyfja 1. október nk. Þetta er alrangt hjá framkvæmdastjóranum. Heilbrigðisráðherra sagði á fundinum að Actavis hefði lækkað verð á tilteknum lyfjum í vor. Sú lækkun hefði samtals numið um 120 milljónum króna, eða að meðaltali um 20% af þeim lyfjum sem um var rætt. Nú væri útlit fyrir, þ.e.a.s. þann 1. október þegar ný lyfjalög taka að hluta til gildi, að tiltekin lyf myndu aftur lækka um svipaða upphæð.

Í samtölum heilbrigðisráðherra við fjölmiðla í kjölfar fundarins komu nákvæmlega sömu upplýsingar fram. Í sjónvarpsfrétt RÚV gætti misskilnings í túlkun fréttamanns á orðum ráðherra sem líklega endurspeglaðist í grein framkvæmdastjóra Samtaka verslunar og þjónustu. Strax var óskað leiðréttingar á umræddri frétt, en einhverra hluta vegna birtist sú leiðrétting ekki.

Eftir stendur sú staðreynd að undanfarið ár hefur náðst góður árangur í því að lækka verð á lyfjum á Íslandi. Enn frekari lækkunar er að vænta.

Heilbrigðisráðuneytið.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum