Hoppa yfir valmynd

Frétt

2. október 2008 Heilbrigðisráðuneytið

Eitt kerfi fyrir alla?

Guðlaugur Þór Þórðarson,
heilbrigðisráðherra

EITT KERFI FYRIR ALLA?

Málþing um greiðsluþátttöku almennings í heilbrigðiskerfinu

Haldið 2. október kl. 15-18,

í Sal A á Hilton Hótel Nordica, Reykjavík

 

 

Góðir fundarmenn

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að stefnt skuli að einföldun á reglum almannatrygginga.

Ástæða þess að ríkisstjórnin setti þetta mál á dagskrá er ljós öllum sem hér eru.

Þær reglur sem gilda um greiðslur almannatrygginga fyrir heilbrigðisþjónustu eru flóknar og í mörgum tilfellum ógagnsæjar, torskildar venjulegu fólki og jafnvel sérfræðingum í regluverkinu.

Í sumum tilfellum hvetja reglurnar til aukinnar eða óþarfa neyslu eins og á t.d. að nokkru við um greiðsluþátttökukerfi lyfja.

Í sumum tilfellum skilur enginn eða getur með trúverðugum hætti útskýrt af hverju sjúklingar þurfa að borga eða ekki að borga. Ekki er sama hvar sjúklingar fá meðhöndlun og sjúklingum virðist mismunað hvað greiðslur varðar eftir sjúkdómum.

Alvarlegast er þó að í sumum tilfellum geta greiðslur einstakra sjúklinga eða fjölskylda farið úr böndum og þeir verið að greiða umtalsverðar fjárhæðir, jafnvel hundruð þúsunda á ári fyrir heilbrigðisþjónustu.

Með öðrum orðum sjúklingar eru illa varðir gegn háum heildargreiðslum vegna heilbrigðisþjónustu.

Margir hagsmunahópar hafa bent á að endurskoða þurfi og einfalda reglur um niðurgreiðslu almannatrygginga vegna heilbrigðisþjónustu. Það sama hafa ýmsir sérfræðingar og starfsmenn í heilbrigðisþjónustunni gert, t.d. sérfræðingar hjá Tryggingastofnun ríkisins.

Á undanförnum árum hefur oft komið til tals að breyta þurfi greiðsluþátttökukerfinu þannig að það takmarkaða fé sem fæst til niðurgreiðslna nýtist betur þeim sjúklingum sem veikastir eru og mest þurfa á greiðsluþátttöku að halda. Í því sambandi hefur gjarnan verið litið til þess fyrirkomulags sem ríkir á hinum Norðurlöndunum, en mér er sagt að hér hafi málið tafist af tæknilegum, fagpólitískum og pólitískum ástæðum.

Af þessu er ljóst að löngu var orðið tímabært að taka greiðsluþátttöku almannatrygginga til endurskoðunar svo að vægt sé til orða tekið.  

Eitt af mínu fyrstu verkum sem heilbrigðisráðherra var því að skoða hvað hægt væri að gera í þessum málum og fyrir um ári síðan skipaði ég nefnd sem fékk það hlutverk að fara yfir málið og gera tillögu að breyttu, einföldu og gagnsæju greiðslufyrirkomulagi lyfja og annarrar heilbrigðisþjónustu.  

Í nefndina voru skipaðir fulltrúar stjórnarflokkana og stjórnarandstöðu auk fulltrúa félagsmálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis, Félags eldri borgara, heilbrigðisráðuneytis, landlæknis, Lyfjagreiðslunefndar, Tryggingastofnunar, Lyfjafræðingafélags Íslands, Læknafélags Íslands og Öryggjabandalagsins.  

Ég fékk dr. Pétur H. Blöndal  og Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur til að stýra starfinu, Pétur sem formann nefndarinnar og Ástu sem varaformann. Þeim til aðstoðar var skipuð framkvæmdanefnd sem í eiga sæti auk Ástu og Péturs þau Einar Magnússon skrifstofustjóri í heilbrigðisráðuneytinu, Hallgrímur Guðmundsson sem þá starfaði sem sérfræðingur í fjármálaráðuneytinu en er nú orðinn sviðstjóri í heilbrigðisráðuneytinu og Rúna Hauksdóttir formaður Lyfjagreiðslunefndar sem jafnframt var ráðin í 30% starf sem starfsmaður nefndarinnar. Með nefndinni hefur Ingunn Björnsdóttir doktor í lyfjafræði unnið tímabundið að einstökum verkefnum en hún hefur m.a. unnið að skipulagningu þessa málþings með Öryrkjabandalaginu.

Í skipunarbréfi nefndarinnar segir að henni „sé falið að gera tillögu að réttlátari, einfaldari og gagnsærri þátttöku einstaklinga í kostnaði vegna lyfja og annarar heilbrigðisþjónustu með það að leiðarljósi að verja einstaklinga gegn of háum kostnaði“.

Nefndinni er falið „að kanna hvort og þá með hvaða hætti er hægt að fella læknis-, lyfja-, rannsóknar-, sjúkraþjálfunar- og annan heilbrigðiskostnað undir eitt niðurgreiðslu- og afsláttarfyrirkomulag þannig að þátttaka borgarans í heilbrigðiskostnaði verði takmörkuð hvort sem kostnaðurinn fellur til utan eða innan heilbrigðisstofnana og hver sem þörf hans fyrir heilbrigðisþjónustu er“.

Nefndin var skipuð í nóvember í fyrra og hélt sinn fyrsta fund þann 28. nóvember. Ég hef fylgst með störfum nefndarinnar, fengið áfangaskýrslur um störf hennar frá Pétri Blöndal og rætt við hann og fleiri nefndarmenn um störfin.

Mér er ljóst að störf nefndarinnar hafa tekið lengri tíma en bjartsýnustu menn, þar á meðal formaður nefndarinnar, vonuðu. Ég hef hins vegar ekki tekið eftir öðru en nefndin hafi unnið hörðum höndum að þessu verkefni.

Það hefur tekið tíma að safna upplýsingum um greiðslur sjúklinga í heilbrigðiskerfinu, málið er stórt og flókið og ég tel að það hafi því eðlilega tekið nokkurn tíma m.a. vegna persónuverndarsjónarmiða.

Stefnt var að því að nýtt kerfi gæti tekið gildi 1. október í ár en því markmiði hefur nú verið breytt í 1. janúar næst komandi.

Ekki er aðalatriðið hvenær nákvæmlega nýtt kerfi kemst á. Í mínum huga er mikilvægast að málið verði ekki pólitískt bitbein heldur að vandað sé til verka og góð sátt náist um nýtt kerfi sem sé einfalt, gagnsætt, veiti meiri jöfnuð og þjóni sjúklingum betur en núverandi kerfi.

Til þess að svo megi verða er mikilvægt að hagsmunasamtök eins og Öryrkjabandalagið komi að verkinu eins og raunin er.  

Öryrkjabandalagið á öflugan fulltrúa í nefndinni, sem er Sigríður Jóhannsdóttir formaður Samtaka sykursjúkra. Að nefndarstarfinu hafa auk þess komið fjöldi annarra hagsmunahópa og einstaklinga sem hafa nú þegar lagt margt gott til mála.

Ég vil að lokum nota tækifærið til að hvetja Öryrkjabandalagið, samtök sjúklinga og almenning til að kynna sér málið vel og taka virkan þátt í umræðu og gerð nýs greiðsluþátttökukerfis fyrir heilbrigðisþjónustu.

Þetta er hagsmunamál okkar allra.

(Talað orð gildir)


Málþingið má sjá í heild á vef Háskólans á Akureyri

 (opnast í Windows Media Player)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum