Hoppa yfir valmynd

Frétt

19. október 2008 Innviðaráðuneytið

Um 25 km kafli á Reykjanesbraut orðinn tvöfaldur

Nýr kafli á Reykjanesbraut var tekinn í notkun í dag og er brautin nú orðin tvöföld að undanskildum stuttum kafla gegnum Hafnarfjörð. Kristján L. Möller samgönguráðherra klippti á borða og opnaði brautina formlega að viðstöddum vegamálastjóra og ýmsum gestum.

Tvöföld Reykjanesbraut vígð.
Tvöföld Reykjanesbraut vígð.

Fyrri áfangi tvöföldunarinnar, milli Hvassahrauns og Strandarheiðar, var tekinn í notkun haustið 2004 og seinni áfanginn, milli Strandarheiðar og Njarðvíkur, var boðinn út haustið 2005 og er honum nú að ljúka. Gunnurinn að Reykjanesbraut með varanlegu slitlagi var lagður árin 1961 til 1965. Tvöfaldi kaflinn er kringum 25 km langur með nokkrum mislægum vegamótum og aðeins er eftir að tvöfalda gegnum Hafnarfjörð með tilheyrandi mislægum gatnamótum.

,,Þetta verkefni hefur verið áralangt baráttumál margra einstaklinga og samtaka og skvið gleðjumst öll yfir því að nú er það í höfn,” sagði ráðherra meðal annars við athöfnina. Hann sagði Reykjanesbrautina vera mikið mannvirki. Umferðarþunginn, hraðinn og mörg og hörmuleg slys hefðu verið með þeim hætti að úrbætur á brautinni hefðu verið orðnar tímabærar.

,,Þessum fjármunum er að mínu viti vel varið. Með tvöfaldri Reykjanesbraut hefur líka tekist að auka umferðaröryggi fyrir utan að auka afköst og gera leiðina greiðari. Á árum áður voru banaslys og alvarleg slys alltof algeng á þessari leið. Frá því tvöföldun hófst hefur hins vegar ekkert banaslys orðið en ekki hefur tekist að útrýma alvarlegum slysum. Við þurfum hins vegar að stefna að því. Og ég get endurtekið hér sem ég hef áður sagt varðandi umferðaröryggi að þótt samgöngumannvirki séu góð og vönduð og allt gert til að draga sem mest úr slysahættu liggur ábyrgðin alltaf að lokum hjá okkur ökumönnum. Þannig þarf þetta allt að spila saman, góð mannvirki, vandaðir bílar og ábyrgir ökumenn. Þá verður útkoman lágmarksáhætta.” sagði ráðherra einnig í ávarpi sínu.

Fram kom einnig í máli hans að mörg verk og viðamikil væru framundan á sviði samgöngumála. Mörg verkefni væru þegar komin af stað og áætlanir miðuðu að því að hrinda í framkvæmd ýmsum stórverkefnum. ,,Nú ríkir hins vegar nokkur óvissa um hvernig þessar áætlanir standast. Verður það verkefni samgönguyfirvalda á næstu vikum að fara yfir allt sviðið og meta hversu raunhæfar þessar áætlanir eru í ljósi aðstæðna,” sagði ráðherra og þakkaði í lokin starfsmönnum Vegagerðarinnar og verktakanna sem unnið hefðu að verkinu.

Eftir að samgöngráðherra hafði klippt á borða með aðstoð Hreins Haraldssonar vegamálastjóra og Steinþórs Jónssonar, formanns Samstöðu, samtaka um tvöföldun Reykjanesbrautar bauð Vegagerðin og Samstaða til kaffisamsætis í Reykjanesbæ.


   

Tvöföld Reykjanesbraut vígð.
Valgeir Sighvatsson var bílstjóri hjá Steindóri árið 1965 þegar fyrsti áfangi Reykjanesbrautar með varanlegu slitlagi var vígður. Hann ók í dag með Kristján L. Möller samgönguráðherra og fylgdarlið eftir lokakaflanum á tvöfaldri brautinni.
 Tvöföld Reykjanesbraut vígð.      

Kristján L. Möller klippir á borðann með aðstoð Hreins Haraldssonar og Steinþórs Jónssonar.

 Tvöföld Reykjanesbraut vígð.      
       


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum