Hoppa yfir valmynd

Frétt

21. október 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Úthlutun styrkja úr Jafnréttissjóði og jafnréttisviðurkenning Jafnréttisráðs

Jafnréttissjóður og Jafnréttisráð efna til sameiginlegrar athafnar föstudaginn 24. október næstkomandi klukkan 15 í Rúgbrauðsgerðinni, Borgartúni 6, þar sem veittir verða fimm styrkir til rannsókna á sviði jafnréttismála og jafnréttisviðurkenning Jafnréttisráðs verður afhent. Við sama tækifæri verða rannsóknarniðurstöður fimm styrkþega ársins 2007 kynntar.

Árið 2005 samþykkti ríkisstjórnin að stofna sérstakan rannsóknarsjóð, Jafnréttissjóð, sem ætlað er að veita fé til rannsókna á stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði. Markmiðið með stofnun sjóðsins er að tryggja að hér á landi verði unnar vandaðar rannsóknir á stöðu kynjanna á vinnumarkaði en slíkar rannsóknir geta verið lykill að bættri stöðu kvenna og karla og flýtt fyrir framgangi jafnréttis. Sérstaklega er horft til þátttöku ungra vísindamanna í þessum rannsóknarverkefnum. Sjóðurinn starfar samkvæmt reglum nr. 513/2006. Að þessu sinni bárust tíu umsóknir. Í ár hljóta fimm verkefni styrk samtals að fjárhæð níu milljónir króna.

Að dagskrá lokinni mun afhending á jafnréttisviðurkenningu Jafnréttisráðs fara fram. Greinargerð um val ráðsins verður þá afhent fjölmiðlum.

Dagskrá

Kl. 15.00   Geir H. Haarde forsætisráðherra afhendir styrki Jafnréttissjóðs fyrir árið 2008.

Kl. 15.15   Styrkþegar síðasta árs kynna rannsóknarniðurstöður og framgang verkefna

  1. Indriði H. Indriðason: Fjöldi kvenna á þingi – framboð eða eftirspurn.
  2. Þorgerður H. Þorvaldsdóttir: Jafnréttisumræða á tímamótum – kyn og margbreytileiki.
  3. Kolbeinn Stefánsson: Vinna foreldra á heimili og vinnumarkaði – alþjóðlegur samanburður.
  4. Helgi Tómasson: Mat á tölfræðilíkönum með vinnumarkaðskönnunum – þýðing ómældra breyta.
  5. Vífill Karlsson: Staðbundið samfélagslegt mikilvægi jafnrar kynjaskiptingar.

Kl. 16.15   Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, afhendir jafnréttisviðurkenningu Jafnréttisráðs 2008.

Léttar veitingar verða veittar að lokinni dagskrá.

Nánari upplýsingar veita Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, formaður Jafnréttissjóðs, í síma 892 7982 eða með tölvupósti á netfangið [email protected] og Hildur Jónsdóttir, formaður Jafnréttisráðs, í síma 863 5383 eða með tölvupósti á netfangið [email protected]



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum