Hoppa yfir valmynd

Frétt

29. október 2008 Innviðaráðuneytið

Samgönguráðherra á fundi um fjármál sveitarfélaga

Kristján L. Möller samgönguráðherra sagðist á hádegisfundi á vegum sveitastjórnar- og skipulagsnefndar Sjálfstæðisflokksins um fjármál sveitarfélaga leggja áherslu á gott samband samgönguráðuneytis og sveitarfélaga.

Samgönguráðherra á fundi hjá Sjálfstæðisflokknum um fjármál sveitarfélaga
Samgönguráðherra á fundi hjá Sjálfstæðisflokknum um fjármál sveitarfélaga

Samgönguráðherra og Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, voru frummælendur á fundinum og ræddu þeir um fjármál sveitarfélaga á breiðum grunni og fjölluðu meðal annars um sameiningu sveitarfélaga, að tekjulækkun væri fyrirsjáanleg hjá þeim ekki síður en hjá ríkissjóði og báðir lögðu áherslu á náið samráð ríkis og sveitarfélaga sem samgönguráðherra og formaður Sambands ísl. sveitarfélaga hafa þegar lýst yfir. Hafa þeir átt með sér reglulega fundi til að skiptast á upplýsingum.

Kristján L. Möller kvaðst fagna því frumkvæði sveitarfélaga að verja grunnþjónustu velferðarkerfisins og fresta verkefnum sem hefðu minni þýðingu á tímum sem þessum. Ráðherra nefndi ýmis verkefni sem unnið væri að í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga í því skyni að létta sveitarfélögunum róðurinn næstu mánuði.

Meðal þeirra er fyrirhuguð breyting á reglugerð um eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga í þá veru að nefndin skuli taka mið af tímabundnu ástandi í efnahagsmálum þjóðarinnar. Ef einstök sveitarfélög kjósi þannig að setja fjárhagsáætlanir sínar fram með halla kalli það ekki sjálfkrafa á aðgerðir nefndarinnar. Einnig er unnið að greiningu á því hvernig breyting á lögum um gatnagerðargjald gæti létt undir með sveitarfélögum vegna lóða sem verið er að skila og verið er að ganga frá úthlutun 250 milljóna króna aukaframlags úr ríkissjóði vegna niðurskurðar á aflamarki.

Í lokin kvaðst ráðherra hafa af því áhyggjur af fyrirsjáanlegum samdrætti í tekjum sveitarfélaga, bæði í skatttekjum og framlögum úr Jöfnunarsjóði þótt enn væri ekki ljóst hver áhrifin yrðu á Jöfnunarsjóð á næsta ári. Hann sagði Jöfnunarsjóð skipta mjög miklu máli fyrir mörg sveitarfélög, hlutdeild sjóðsins væri yfir þriðjungur heildartekna hjá um helmingi sveitarfélaga landsins.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum