Hoppa yfir valmynd

Frétt

31. október 2008 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra á ráðstefnu um innleiðingu vatnatilskipunar ESB

Góðir ráðstefnugestir,

Vatn hefur í gegnum aldirnar orðið mörgum skáldum að yrkisefni. Um þessar mundir eru 100 ár liðin frá því að Aðalsteinn Kristmundsson, Steinn Steinarr, fæddist á Laugalandi í Nauteyrarhreppi við Ísafjarðadjúp. Í einu af þekktari ljóðum hans, Tímanum og vatninu, segir m.a.:

„Og tíminn og vatnið

renna veglaust til þurrðar"

- þörf áminning um að vatnið sem við teljum okkur eiga gnótt af getur runnið okkur úr greypum ef við förum ekki vel með það, tökum tillit til þess við skipulag og framkvæmdir og hugum að komandi kynslóðum. Markviss vatnsstjórnun er nauðsynleg.

Á ráðstefnunni hér í dag mun verða fjallað um innleiðingu vatnatilskipunar Evrópusambandsins hér á landi, en tilskipunin er nú hluti af EES-samningnum. EES samningurinn hefur haft mikil áhrif á íslenska umhverfislöggjöf og skilað okkur áleiðis baráttunni fyrir betri umgengni við náttúruna. Má í því sambandi nefna lög um mat á umhverfisáhrifum, mengunarvarnir og markvissari vinnu á sviði efna- og efnavara. Öll tengjast þau vatnsbúskapnum með einum eða öðrum hætti.

Vatnatilskipunin sjálf er gríðarlega mikilvæg þar sem hún tekur bæði til verndar vatns og sjálfbærrar nýtingar þess. Þannig eru meginmarkmið hennar eru tvö: annars vegar að hindra frekari rýrnun vatnsgæða og hins vegar að bæta ástand vatns þar sem það er mögulegt samfara nýtingu. Tilskipunin byggir á almennum verndarsjónarmiðum, þ.e. nauðsyn þess að vernda vatn og vistkerfi og tryggja sjálfbæra nýtingu vatns. Með henni er stjórnkerfinu gert að nálgast málefni vatnsins með heildstæðum hætti og koma á miðlægri greiningu upplýsinga um vatnsumhverfið. Einnig er henni ætlað að tryggja víðtæka upplýsingagjöf og samráð við almenning á þessu sviði.

Hér í salnum er saman kominn fjöldi vísindamanna sem safnað hafa gögnum um vötn og lífríki þeirra. Munu þeir kynna þau gögn sem til eru á viðkomandi stofnunum um ástand vatna og strandsjávar og áhrif framkvæmda eins og vegagerðar, virkjana og landgræðslu á vötn. Upplýsingarnar verða síðan notaðar til áframhaldandi vinnu við innleiðingu vatnatilskipunarinnar.

Vatn er forsenda alls líf á jörðinni. Flestir Íslendingar þekkja ekki annað en óþrjótandi aðgang að góðu og tæru drykkjarvatni, en við höfum sem þjóð líka margan slaginn tekið við vatnið í einhverri mynd: Óbrúuð jökulvötn, óörugg vöð, óþurrkatíð, snjóflóð og skriðuföll. Með tímanum höfum við lært að beisla vatnið, láta það þjóna okkur, eignast bandamann í vatninu og að meta auðlindina vatn.

Grunnurinn að nútíma hagsæld er að miklu leyti vatninu okkar að þakka. Á því sviði erum við sannarlega rík þjóð. Einmitt þess vegna verðum við að hlúa auðlindinni og treysta almenna þekkingu og rannsóknir á henni. Þar hefur umhverfisráðuneytið og stofnanir þess hlutverki að gegna.

Með orkulögum sem sett voru árið 1967 urðu Vatnamælingar deild á Orkustofnun undir stjórn orkumálastjóra. Skipulagi stofnunarinnar var breytt árið 1997 þegar Vatnamælingar urðu fjárhagslega sjálfstæð eining og hafa frá þeim tíma starfað samkvæmt verksamningum við verkkaupa. Frá og með 1. janúar 2009 mun starfssemi Vatnamælinga og Veðurstofu Íslands sameinast. Með hinni nýju stofnun, Veðurstofu Íslands, munu rannsóknir á vatnafari og á vatnsauðlindinni eflast og tengsl aukast við starf sem lýtur að veðurfari og veðurfarsrannsóknum.

Hollustuvernd ríkisins og síðar Umhverfisstofnun, svo og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga hafa gegnt mikilvægu hlutverki við að tryggja gæði vatns og varnir gegn mengun vatns. Samkvæmt ákvæðum laga um hollustuhætti og mengunarvarnir hefur Umhverfisstofnun yfirumsjón með heilbrigðiseftirliti og skal sjá um að vöktun og að rannsóknir því tengdar séu framkvæmdar. Heilbrigðisnefndir sveitarfélaga fara að mestu með umhverfiseftirlit heima í héraði. Þær sjá um að flokka yfirborðsvatn og grunnvatn miðað við ástand þess og að grípa til aðgerða sem miða að því að viðhalda náttúrulegu ástandi.

Vatnalaganefnd setti fram tillögur að endurskoðun vatnalaga nr. 20/2006. Nefndin leggur til að fram fari endurskoðun á stjórnsýsluákvæðum vatnalaga nr. 20/2006 sem miði að því í fyrsta lagi að tryggja að við meðferð mála samkvæmt lögunum verði litið til ólíkra hagsmuna sem við vatnsauðlindina eru tengdir. Í öðru lagi að ákvæðin verði gerð skýrari og að betur verði hugað að samræmi við stjórnsýsluákvæði annarra laga á þessu sviði, og í þriðja lagi að skipulag stjórnsýslu vatnamála verði gert heildstæðara og í því sambandi verði tekið mið af ákvæðum vatnatilskipunar ESB.

Vatnatilskipunin setur ákveðinn og samræmdan ramma um skipulag vatnsmála en útfærsla hinna ýmsu leiða í því sambandi er í höndum hvers ríkis. Hér á landi vinna umhverfisráðuneytið, Umhverfisstofnun og hin nýja Veðurstofa Íslands að innleiðingu tilskipunarinnar, greiningu á gögnum og skoðun á fyrirkomulagi stjórnsýslu vatnsmála.

Mikilvægt er að sveitarfélögin í landinu og samtök þeirra komi að þessu stóra máli og mun ráðuneytið kappkosta að eiga náið samstarf við Samband íslenskra sveitarfélaga við innleiðingu tilskipunarinnar. Þá verður og haft virkt samráð við þau önnur ráðuneyti, stofnanir og aðra hagsmunaaðila sem málið varðar.

Í aðfaraorðum vatnatilskipunarinnar segir:

„Vatn er ekki eins og hver önnur verslunarvara heldur arfleifð sem ber að vernda, standa vörð um og fara með sem slíka"

Tilgangur tilskipunarinnar er að setja ramma um vernd yfirborðsvatns, árósavatns, strandsjávar og grunnvatns. Með innleiðingu tilskipunarinnar stígum við stórt skref fram á við. Vatn er ekki óþrjótandi og berum við, hvert og eitt, ábyrgð á því að skila auðlindinni í góðu ásigkomulagi til komandi kynslóða, þannig að grunnur lífs á jörðinni sé tryggður í samræmi við sjálfbæra þróun.

Megi dagurinn í dag verða ykkur fræðandi og árangursríkur.

Takk fyrir.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum