Hoppa yfir valmynd

Frétt

6. nóvember 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mælt fyrir frumvarpi um hlutabætur vegna atvinnuleysis

Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra mælti í dag fyrir frumvarpi sem ætlað er að sporna við vaxandi atvinnuleysi með því að ýta undir að atvinnurekendur semji um lægra starfshlutfall við starfsfólk sitt í stað þess að grípa til uppsagna. Í umræðum á Alþingi kom fram stuðningur við efni frumvarpsins meðal þeirra þingmanna sem tóku til máls. Fram kom hjá Jóhönnu að nú væri til skoðunar í félags- og tryggingamálaráðuneytinu hvort auka megi sveigjanleika atvinnuleysisbótakerfisins gagnvart einyrkjum og námsfólki í starfstengdu námi, en nokkrar umræður urðu um stöðu þessara hópa.

Verði frumvarpið að lögum verður sá tími sem heimilt er að greiða fólki tekjutengdar atvinnuleysisbætur lengdur hlutfallslega í samræmi við lækkað starfshlutfall. Í þessu felst að starfsmaður sem hefur áunnið sér fullan rétt til atvinnuleysisbóta en lækkar úr 100% starfshlutfalli í 50% getur fengið greiddar tekjutengdar atvinnuleysisbætur í samtals sex mánuði í stað þriggja áður.

Í öðru lagi verður skerðing atvinnuleysisbóta vegna launagreiðslna fyrir hlutastarf felld niður. Í þessu felst að föst laun starfsmanns fyrir 50% starfshlutfall eða meira munu ekki skerða hlutfallslegar atvinnuleysisbætur eins og verið hefur.

Í þriðja lagi er frumvarpinu ætlað að vernda réttindi launafólks hjá Ábyrgðasjóði launa. Verði fyrirtæki gjaldþrota munu greiðslur úr Ábyrgðasjóði launa miðast við tekjur samkvæmt því starfshlutfalli sem viðkomandi gegndi áður en til samdráttar kom í fyrirtækinu á tímabilinu 1. október sl. til og með 31. janúar 2009 og að fram hafi komið krafa um gjaldþrotaskipti á búi atvinnurekanda innan tólf mánaða frá þeim tíma sem starfshlutfall starfsmanns var lækkað.

Unnt er að hlusta á umræður um frumvarpið á heimasíðu Alþingis.

Tenging frá vef ráðuneytisins Umræður á Alþingi.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum