Hoppa yfir valmynd

Frétt

24. nóvember 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Atvinnustyrkir til kvenna

Ráðherra afhendir styrki til atvinnumála kvennaJóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, veitti í dag 50 milljónir króna í atvinnustyrki til kvenna við athöfn sem fram fór í Þjóðmenningarhúsinu. Verkefnin að þessu sinni voru afar fjölbreytt, svo sem þjónusta af ýmsu tagi, framleiðsla, hönnun og félagsleg verkefni. Tíu umsækjendur fengu hæsta mögulegan styrk, 2 milljónir króna fyrir hvert verkefni. Að jafnaði hafa verið til ráðstöfunar um 15–20 milljónir króna. Styrkfjárhæðin var hins vegar hækkuð verulega á þessu ári og voru samtals 50 milljónir króna til úthlutunar. Tæplega 250 umsóknir bárust sjóðnum en styrkir voru veittir til 56 verkefna. Tæplega helmingur styrkjanna rennur til verkefna á höfuðborgarsvæðinu en rúmur helmingur til verkefna vítt og breitt um landið.

Sérstakir styrkir til atvinnusköpunar kvenna hafa verið veittir frá árinu 1991. Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi félagsmálaráðherra, efndi til verkefnisins í því skyni að ýta undir atvinnurekstur kvenna með því að bæta aðgang þeirra að fjármagni, en atvinnuleysi var töluvert á þessum tíma. Mikill fjöldi umsókna hefur borist um styrki frá því að verkefnið hóf göngu sína og hafa styrkirnir oft skipt sköpum fyrir þær konur sem fengið hafa og eflt þær til dáða við að vinna að hugmyndum sínum og verkefnum. Alls hafa um 400 verkefni hlotið styrki frá upphafi.

Jóhanna Sigurðardóttir ávarpaði gesti við afhendingu styrkjanna og sagði meðal annars:

„Nú bregður svo við að uppgangstími síðustu ára er að baki. Nánast í einu vetfangi stöndum við frammi fyrir miklu og vaxandi atvinnuleysi við aðstæður sem við sjáum ekki fyrir endann á. Við stöndum á tímamótum og það mun krefjast mikils átaks að byggja upp blómlegt og gott atvinnulíf á nýjan leik. Kannski eigum við eftir að sjá ný tækifæri og aðrar áherslur en verið hafa síðustu ár í atvinnulífinu, með aukinni áherslu á hugvit, nýsköpun og fjölbreytni.

Neyðin kennir naktri konu að spinna hefur oft verið sagt og það er jafnan svo með gömul og góð orðatiltæki að á bak við þau liggur raunhæf speki, byggð á reynslu. Þetta er ég sannfærð um að verði raunin með íslenskt samfélag. Þjóðin er vel menntuð, vel upplýst og hér er mikill fjöldi fólks sem hefur aflað sér reynslu, þekkingar og sambanda á sviði rekstrar, vöruþróunar og margvíslegra viðskipta, bæði hérlendis og erlendis. Við höfum því allt til að bera sem gerir samfélaginu kleift að rétta fljótt úr kútnum ef við spilum vel úr því sem við höfum á hendi.“

Ráðherra vísaði til ýmissa rannsókna þar sem sýnt hefur verið fram á að rekstur fyrirtækja gengur jafnan betur ef konur eru meðal æðstu stjórnenda, meðal annars finnskrar könnunar sem fram fór í 14.000 fyrirtækjum og leiddi í ljós að fyrirtæki undir stjórn kvenna skiluðu að jafnaði um 10% meiri arði en þegar karlar voru við stjórnvölinn. Mikilvægt væri að vinna með niðurstöður þessar, enda sýndu þær hve samfélaginu er mikilvægt að nýta krafta kvenna mun betur í atvinnulífinu en hingað til hefur verið gert.

Tenging frá vef ráðuneytisinsÁvarp Jóhönnu Sigurðardóttur við styrkveitinguna í Þjóðmenningarhúsinu

Skjal fyrir Acrobat ReaderTíu styrkhæstu verkefnin (PDF, 18KB)



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum