Hoppa yfir valmynd

Frétt

5. desember 2008 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Fundir um umhverfismál hjá Evrópusambandinu

Umhverfisráðherra og umhverfisráðherra Frakklands
Í Brussel

Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra átti fund með Nathalie Kosciuscko-Morizet, umhverfisráðherra Frakklands, í gær. Frakkland fer nú með formennsku í Evrópusambandinu.

Ráðherrarnir ræddu stefnu Evrópusambandsins í umhverfismálum, sérstaklega fyrirliggjandi tillögur í loftslagsmálum. Í tillögunum er stefnt að því að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 20% fyrir árið 2020 miðað við losun 1990 og auka notkun endurnýjanlegrar orku í 20% af heildar orkunotkun í ríkjum sambandsins.

Áframhaldandi áhersla á loftslagsbreytingar

Reiknað er með að tillögurnar verði samþykktar snemma á næsta ári og að fullu frágengnar fyrir loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn í desember 2009. Þar er stefnt að því að ljúka gerð nýs alþjóðasamnings um losun gróðurhúsalofttegunda sem taki við af Kyoto-bókuninni þegar gildistíma hennar lýkur í lok árs 2012. Fram kom í máli franska umhverfisráðherrans að Evrópusambandið væri jafnvel reiðubúið til að ganga lengra í samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda ef alþjóðlegt samkomulag næðist um slíkt. Þrátt fyrir efnahagsörðugleika mætti ekki slá á frest bráðnauðsynlegum aðgerðum í loftslagsmálum. Auk þess gætu aðgerðir í loftslagsmálum haft jákvæð áhrif á efnahagskerfið og skapað ný störf, svo sem í þróun loftslagsvænni tækni og rannsóknum. Ræddu ráðherrarnir sértaklega um nauðsyn þess að leggja aukna áherslu nú á grænan hagvöxt í þessu sambandi.

Náin samskipti ESB og Íslands í loftslagsmálum

Umhverfisráðherrarnir töldu afar mikilvægt að loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna sem nú stendur yfir í Poznan í Póllandi yrði árangursrík. Endanlegrar niðurstöðu í viðræðunum væri þó ekki að vænta fyrr en í Kaupmannahöfn á næsta ári. Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra gerði grein fyrir áherslum Íslands í viðræðum um nýjan loftslagssamning og þeirri stöðu sem Ísland væri í að vera innan viðskiptakerfis ESB með loftslagsheimildir í gegnum EES samninginn. Því legðu íslensk stjórnvöld áherslu á að eiga sem nánust samskipti við ESB í samningaviðræðunum sem nú eru í gangi.

Málefni Norðurheimskautsins

Umhverfisráðherrarnir ræddu einnig málefni Norðurheimskautsins en Frakkland hefur lagt mikla áherslu á þau í formennskutíð sinni, sérstaklega vegna loftslagsbreytinga. Þórunn Sveinbjarnardóttir fagnaði áhuga ESB á málefnum Norðurskautsins enda væri um að ræða mikið og vaxandi verkefni sem biði Norðurskautsríkjanna og stórt hagsmunamál Íslands. Því væri þátttaka ESB og stuðningur afar jákvæður að mati Íslands. Fram kom að ESB hefur í hyggju að sækja um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu.

Fundur norrænna umhverfisráðherra

Umhverfisráðherra sótti einnig fund norrænu umhverfisráðherra, sem haldinn var í aðdraganda fundar umhverfisráðherra Evrópusambandslandanna. Samstaða ríkir milli þeirra Norðurlanda sem eru aðilar að ESB um að ekki verði hvikað frá þegar samþykktum markmiðum í loftslagsmálum og að stefnt verði að meiri samdrátt í losun við gerð nýs loftslagssamnings. Löndin telja mikilvægt að fylgja þeirri stefnu sem mörkuð hefur verið um að setja losunarheimildir á uppboðsmarkað þannig að árið 2020 verði allar heimildir á markaði. Ennfremur sé nauðsynlegt að halda verði á losunarheimildum innan skynsamlegra marka og að tekjum af sölu heimilda verði í auknum mæli varið til loftslagsbætandi verkefna í þróunarríkjunum.

Á fundi norrænu ráðherranna var einnig rætt um alþjóðlegan samnig um takmörkun á notkun kvikasilfurs sem öll norrænu ríkin eru fylgjandi, en Ísland hefur ásamt Noregi og Sviss átt frumkvæði að því að flytja tillögur um það á Alþjóðavettvangi. Slíkur samningur getur t.d. gagnast vel mengunarvörnum á Norðurskautssvæðinu. Einnig var á fundinum rætt um úrgangsmál, útblástur frá nýjum bílum og erfðabreyttar lífverur en vinna er í gangi á þessum sviðum hjá ESB.

Með umhverfisráðherra í för var Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóri í umhverfisráðuneytinu. Auk þeirra tóku þátt í fundunum Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra, Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir, sendiráðsritari og Ingimar Sigurðsson, fulltrúi umhverfisráðuneytisins í sendiráðinu í Brussel.

Heimasíða Umhverfisstofnunar Evrópu.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum