Hoppa yfir valmynd

Frétt

16. desember 2008 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Verkefnisstjórn um stefnumótun ráðuneytisins á sviði háskólamála og vísinda

Menntamálaráðherra hefur ákveðið að skipa sérstaka verkefnisstjórn til að leggja drög að stefnumótun ráðuneytisins á sviði háskólamála og vísinda til að bregðast við breyttum aðstæðum í atvinnu- og efnahagsmálum.

Menntamálaráðherra hefur ákveðið að skipa sérstaka verkefnisstjórn til að leggja drög að stefnumótun ráðuneytisins á sviði háskólamála og vísinda til að bregðast við breyttum aðstæðum í atvinnu- og efnahagsmálum. Ráðherra mun einnig skipa sérstaka ráðgjafanefnd með erlendum sérfræðingum.

Verkefnisstjórninni er ætlað að leggja fram tillögur um aðgerðir og áherslur til skemmri og lengri tíma sem eru til þess fallnar að styrkja háskóla og vísindastarfsemi í landinu, hvernig efla megi samstarf háskóla, vísindastofnana og fyrirtækja, með það að markmiði að fjármunir, sem veitt er til kennslu og rannsókna, nýtist sem best til að styðja við nýsköpun og uppbyggingu á sviði atvinnumála, og hvernig skapa megi tækifæri og virkja þekkingu og reynslu háskólamenntaðra einstaklinga sem misst hafa vinnuna til virðisskapandi starfsemi og atvinnuuppbyggingar.

Verkefnisstjórnin verður jafnframt vettvangur öflunar og miðlunar upplýsinga um leiðir og úrræði sem tengjast menntun, rannsóknum og nýsköpun til að mæta aðsteðjandi vanda og mun eiga samstarf við samstarfsnefnd háskólastigsins, sem í sitja rektorar allra háskóla í landinu, nefndir vísinda- og tækniráðs, þar sem sæti eiga fulltrúar atvinnulífs og mennta- og vísindastofnana og svo hina sérstöku ráðgjafanefnd sem skipuð er erlendum sérfræðingum.

Menntamálaráðherra mun að fengnum tillögum nefndanna leggja þær fyrir vísindanefnd og tækninefnd Vísinda- og tækniráðs til umfjöllunar þannig að þær geti nýst við stefnumótun á vettvangi ráðsins.

Í verkefnisstjórninni eiga sæti:

  • dr. Guðrún Nordal, formaður Vísindanefndar,
  • dr. Kristján Þórarinsson, Landssambandi íslenskra útvegsmanna,
  • Hallgrímur Jónasson, forstjóri Rannís, Ragnhildur Geirsdóttir, forstjóri,
  • Hjálmar H. Ragnarsson, rektor,
  • dr. Tryggvi Þór Herbertsson, hagfræðingur,
  • dr. Friðrik Már Baldursson, hagfræðingur,
  • Björk Þórarinsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri, og
  • dr. Kristín Vala Ragnarsdóttir, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands.

Formaður verkefnisstjórnarinnar er Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri.

Ráðgjafanefndina skipa:

  • Christoffer Taxell, formaður samtaka háskóla í Finnlandi og fv. formaður samtaka finnskra atvinnurekenda,
  • Iain Gillespie, forstöðumaður líftæknisviðs OECD á vísinda- og tækniskrifstofu OECD,
  • Markku Linna, fv. ráðuneytisstjóri mennta- og menningarmálaráðuneytis Finnlands, og Paulo Santiago, sérfræðingur í háskólamálum hjá OECD.

Starfsmaður sérfræðinganefndarinnar verður Arnold Verbeek, sérfræðingur á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar hjá ráðgjafafyrirtækinu IDEA Consult.

Verkefnisstjórnin mun starfa til vors 2009, en þá verður tekin afstaða til þess hvort framhald verði á störfum hennar.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum