Hoppa yfir valmynd

Frétt

8. janúar 2009 Innviðaráðuneytið

Ný reglugerð um skoðun ökutækja

Samgönguráðherra hefur sett nýja reglugerð um skoðun ökutækja sem tekur gildi á morgun. Helstu breytingar snerta tíðni skoðana, hjólhýsi og tjaldvagnar eru framvegis skoðunarskyld svo og fornbílar og heimilt er að leggja á vanrækslugjald sé ökutæki ekki fært til skoðunar á tilsettum tíma.

Meginbreytingin er að gert er ráð fyrir reglubundinni skoðun allra ökutækja nema dráttarvéla og torfærutækja. Ökutæki skal fyrst skoðað á 4. ári eftir skráningu að skráningarári frátöldu, síðan á tveggja ára fresti þar til ökutækið er 8 ára og árlega eftir það. Fornbílar, tjaldvagnar og hjólhýsi eru skoðunarskyld annað hvert ár fyrir 1. ágúst. Bílaleigubílar falla framvegis undir sömu skoðunartíðni og einkabílar.

Önnur meginbreyting er heimild til álagningar 15 þúsund króna vanrækslugjalds hafi ökutæki ekki verið fært til skoðunar fyrir lok annars mánaðar eftir hinn skoðunarskylda tíma. Gjaldið er einnig lagt á sé ekki sinnt endurskoðun ökutækis á réttum tíma. Sé ökutækið fært til skoðunar innan mánaðar frá álagningu gjaldsins skal það lækka í 7.500 krónur.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum