Hoppa yfir valmynd

Frétt

16. janúar 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ráðherra íhugar lagasetningu um kynjakvóta

Ávarp ráðherra
Ávarp ráðherra

Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, sagði í ávarpi á jafnréttisþingi sem hófst í morgun að hún hallist æ meir að notkun kynjakvóta til þess að uppfylla ákvæði stjórnarskrárinnar um jafnan rétt kvenna og karla og vilji skoða alvarlega setningu laga í því skyni. Ráðherra vísaði í reynslu Norðmanna af lagasetningu í þessum efnum með þeim árangri að hlutfall kvenna í stjórnum stórra fyrirtækja fór úr 7% í 40%.

Ráðherra sagði meðal annars: „Það er óumdeilanlega hlutverk löggjafans og stjórnvalda, með setningu laga og reglna, að sníða samfélaginu þann stakk og leikreglur sem hæfa markmiðum okkar um sanngirni, réttlæti og siðlegt samfélag með grundvallargildi lýðræðis og jafnrétti að leiðarljósi. Það má gera því skóna að stjórnvöld og löggjafinn hafa á undanförnum árum átt í vök að verjast hvað þetta hlutverk varðar gagnvart þeim sem engum leikreglum vilja lúta, gagnvart þeim sem hafa viljað segja sig úr lögum hvað ábyrgð þeirra gagnvart samfélaginu í heild varðar, og með því slíta sig úr siðferðilegu sambandi við þjóðina.“

Kærunefnd jafnréttismála

Samkvæmt nýjum jafnréttislögum hefur kærunefnd jafnréttismála fengið aukið vægi þar sem úrskurðir hennar eru nú bindandi en áður var einungis um álit að ræða. Ráðherra sagði reynslu af þessu eiga eftir að koma í ljós en markmiðið væri að styrkja kærunefndina og þá réttarvernd gegn kynbundinni mismunun sem lögin eigi að veita brotaþola.

Ráðherra gerði að umtalsefni álit kærunefndar jafnréttismála á síðustu árum en fyrir liggur að álitum þar sem nefndin telur að jafnréttislögin hafi verið brotin við stöðuveitingar hefur fækkað hlutfallslega frá árinu 2004 og það umtalsvert. Hefur kærunefndin meðal annars vísað til þess svigrúms sem atvinnurekendur eru taldir hafa við val á umsækjendum við störf. „Þetta er sannarlega umhugsunarvert sjónarmið sem ástæða er til að ætla að geti haft óæskileg áhrif á þróun jafnréttis í landinu. Enn er ekki farið að reyna á hin nýju lög að því er þetta varðar. Ég veit að margir eru hugsi yfir þessari þróun og spyrja hvað valdi og með þessu verður grannt fylgst.“

  

Frá jafnréttisþingiHöfum ekki efni á því að mismuna kynjunum

Ráðherra vísaði til erlendra rannsókna sem hafa sýnt að minni líkur eru á að fyrirtæki þar sem konur eru í stjórn lendi í alvarlegum vanskilum og að fyrirtæki séu alltaf líklegri til að lenda í vanskilum þar sem engar konur eru í stjórn. Þá hafi finnsk rannsókn sýnt að fyrirtæki undir stjórn kvenna skila 10% meiri arði en fyrirtæki undir stjórn karla.

Ráðherra sagði að það væri þjóðinni lífsspursmál að menntun, reynsla og þekking allra, kvenna og karla, séu nýtt til fulls og metin að verðleikum. „Við höfum einfaldlega ekki efni á því að mismuna kynjunum. Kynbundin mismunun, hvort sem er í launum, við ráðningar í störf eða skipanir í stjórnir og embætti, felur í sér að mannauður samfélags okkar er ekki nýttur sem skyldi. Pólitískar ráðningar sem verða til þess að hæfileikaríkasta fólkið er sniðgengið bitnar á okkur öllum. Slíkt framferði hefur reynst samfélaginu dýrkeypt.

Konur hafa ekki krafist þess að þeim sé hyglað, að þeim veitist framgangur án verðleika. Þær hafa einungis krafist þess að sanngjörn og málefnaleg sjónarmið ráði för. Ég er viss um að staða samfélagsins væri önnur og betri hefðu konur átt þann sess sem þeim ber í atvinnulífinu, í fjármálastofnunum, í stjórnmálum og almennt í stofnunum samfélagsins.“

Ráðherra sagði enn fremur nauðsynlegt að flétta kynja- og jafnréttissjónarmið inn í endurreisn Íslands: „Konur verða á komandi mánuðum, misserum og árum að gegna lykilhlutverkum í endurreisn samfélagsins við að skapa hér ný gildi og verðmætamat í samfélaginu. Það gæti ráðið úrslitum um að vel til takist.“

Tenging frá vef ráðuneytisinsÁvarp félags- og tryggingamálaráðherra á þinginu



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum