Hoppa yfir valmynd

Frétt

20. janúar 2009 Dómsmálaráðuneytið

Sýslumaður endurskoðar ákvörðun um fjárnám

Sýslumaðurinn á Selfossi tilkynnti fjölmiðlum 19. janúar, að hann ætlaði að gefa fyrirmæli til lögreglu um að handtaka 370 einstaklinga í Árnessýslu, þar sem þeir hefðu ekki skilað sér í fjárnám hjá embætti hans. Ákvörðun sína tók sýslumaður án samráðs við dómsmálaráðuneyti.

Sýslumaðurinn á Selfossi tilkynnti fjölmiðlum 19. janúar, að hann ætlaði að gefa fyrirmæli til lögreglu um að handtaka 370 einstaklinga í Árnessýslu, þar sem þeir hefðu ekki skilað sér í fjárnám hjá embætti hans.

Ákvörðun sína tók sýslumaður án samráðs við dómsmálaráðuneyti. Í tilefni hennar vill dómsmálaráðherra taka fram, að hann telur ekki skynsamlegt af sýslumanni að kynna ákvörðun sína með þeim hætti, sem hann hefur gert í fjölmiðlum. Þá sé það ekki í samræmi við ákvarðanir ríkisstjórnarinnar, að nú sé gripið til óvenjulegra og harkalegra innheimtuaðgerða af hálfu sýslumanns. Í því efni beri að gæta reglna stjórnsýsluréttarins um jafnræði og meðalhóf í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu.

Hefur dómsmálaráðuneytið beint þeim tilmælum til sýslumannsins á Selfossi, að hann hafi ofangreind meginsjónarmið í huga. Sýslumaðurinn hefur tilkynnt ráðuneytinu, að hér eftir sem hingað til muni verða beitt vægustu aðferðum við innheimtu gjalda auk þess sem sýslumaður segir, að yfirlýsing sín hafi ekki verið viðeigandi í hinu erfiða umróti í þjóðfélaginu um þessar mundir.

Sýslumaður hefur jafnframt skýrt ráðuneytinu frá því, að hann muni taka til endurskoðunar vinnubrögð í þeim tilvikum að ítrekuðum kvaðningum hafi ekki verið sinnt og hvetji alla hlutaðeigandi til þess að hafa samband vegna sinna mála þannig að þeim verði lokið með farsælum hætti. En slíkt sé allra hagur.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum