Hoppa yfir valmynd

Frétt

22. janúar 2009 Innviðaráðuneytið

Útblásturskvóti og gjaldamál rædd á fundi samgönguráðherra með flugrekendum

Kristján L. Möller átti í dag fund með fulltrúum flugrekenda og þeirra opinberu aðila sem sinna rekstri flugvalla og flugleiðsöguþjónustu. Nærri 30 manns sátu fundinn þar sem skipst var á skoðunum um ýmsa þætti í flugrekstri svo sem gjaldamál, útblásturskvóta, loftferðasamninga og innanlandsflug svo nokkuð sé nefnt.

Fundur samgönguráðherra með flugrekendum 22. janúar 2009.
Fundur samgönguráðherra með flugrekendum 22. janúar 2009.

Samgönguráðherra sagði ástæðu fundarins meðal annars þá að hann vildi kynna flugekendum helstu mál sem unnið væri að í ráðuneytinu og heyra álit þeirra. Sagði hann það ekki síst nauðsynlegt nú á tímum efnahagserfiðleika, við slíkar aðstæður væri brýnt að meta stöðuna og þá möguleika og tækifæri sem gætu gefist.

Varðandi kvótakerfi á útblástur í flugsamgöngum sem kemur senn til framkvæmda hjá Evrópusambandinu sagði ráðherra málið ekki útkljáð af hálfu íslenskra stjórnvalda. Sagði hann að gæta yrði þess að ekki yrðu lagðar ósanngjarnar kröfur á íslenskan flugrekstur en um leið yrði landið að taka á sig eðlilegar skuldbindingar og ábyrgð vegna áhrifa samgangna á umhverfið. Þá minntist ráðherra á lagafrumvarp um breytingu á loftferðalögum sem nú lægi fyrir Alþingi en breytingarnar snúast meðal annars um flugvernd og gjaldtöku vegna hennar.

Þá ræddi samgönguráðherra mögulega sameiningu Flugstoða ohf. og Keflavíkurflugvallar ohf. sem er til skoðunar í ráðuneytinu, um verkefnastofn um flugöryggi sem senn er tilbúinn, um innanlandsflug og hann kom einnig inn á óvissu um uppbyggingu samgöngumiðstöðvar.

Pétur K. Maack flugmálastjóri fór yfir helstu tölur og umfang í íslenskum flugrekstri. Kom meðal annars fram hjá honum að framleiðslutekjur í flug árið 2006 voru um 85 milljarðar króna og til samanburðar nefndi hann að framleiðslutekjur í fisveiðum voru 82 milljarðar og vinnslu sjávarafurða 91 milljarður króna.

Í kjölfar erindanna urðu umræður um það sem borið hafði á góma. Kom meðal annars fram sú ábending frá flugrekendum að fulltrúi þeirra tæki sæti í starfshópi sem vinnur að endurskoðun fyrirkomulags gjaldtöku á flugvöllum, ítrekuð var nauðsyn loftferðasamninga vegna erlendra verkefna íslenskra flugrekenda og rætt um hugsanlega ívilnun gjalda á flugvélar sem teldust umhverfisvænar hliðstætt því sem á við um bíla.

Í lok fundar ítrekaði samgönguráðherra nauðsyn skoðanaskipta sem þessara og hvatti flugrekendur til að bera sig upp við samgönguyfirvöld með málefni greinarinnar.


Pétur K. Maack flugmálastjóri hefur orðið.  
Pétur K. Maack flugmálastjóri hefur orðið. Við hlið hans sitja Kristján L. Möller samgönguráðherra og Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri samgönguráðuneytis, sem stýrði fundinum.      

 Kringum 30 manns sátu fundinn      
Kringum 30 manns sátu fund samgönguráðherra og flugrekenda í Reykjavík í dag.       

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum