Hoppa yfir valmynd

Frétt

25. febrúar 2009 Dómsmálaráðuneytið

Lög um meðferð sakamála tóku gildi 1. janúar 2009

Lög um meðferð sakamála nr. 88 12. júní 2008 tóku gildi hinn 1. janúar síðastliðinn en þau leysa af hólmi eldri lög nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Forsíða ritsins Lög um meðferð sakamála ásamt greinargerð
Forsíða ritsins Lög um meðferð sakamála ásamt greinargerð.

Lög um meðferð sakamála nr. 88 12. júní 2008 tóku gildi hinn 1. janúar síðastliðinn en þau leysa af hólmi eldri lög nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sakamálalögin eru afrakstur margra ára samvinnu réttarfarsnefndar og dóms- og kirkjumálaráðuneytisins við heildarendurskoðun á eldri lögunum og hafa ýmis nýmæli í för með sér. Bókaútgáfan Codex og dóms- og kirkjumálaráðuneytið hafa gefið út ritið Lög um meðferð sakamála ásamt greinargerð sem selt verður í Bóksölu stúdenta, bóksölu Úlfljóts og verslunum Pennans.

Þrjú stjórnsýslustig

Aðalbreytingin á lögunum felst í því að ákæruvaldinu er skipt í þrjú stjórnsýslustig. Nýju embætti héraðssaksóknara er með lögunum falin saksókn á fyrsta stjórnsýslustigi í nánast öllum meiri háttar sakamálum, svo sem í manndrápsmálum, kynferðisbrotamálum, málum vegna brota sem hafa í för með sér almannahættu, málum vegna brota gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu valdhöfum þess, stórfelldum líkamsárásarmálum o.fl. Með hliðsjón af stöðu efnahagsmála var með lögum nr. 156/2008, sem tóku gildi hinn 31. desember 2008, framkvæmd þeirra ákvæða laganna er varða héraðssaksóknara, embætti hans og verksvið frestað til 1. janúar 2010.

Hlutverk ríkissaksóknara sem æðsta handhafa ákæruvaldsins verður að setja almennar reglur og hafa eftirlit með öðrum ákærendum, auk þess að taka ákvarðanir um áfrýjun héraðsdóma í sakamálum. Þá er ákæruvald í veigameiri sakamálum, svo sem efnahagsbrotum, flutt frá lögreglustjórum til héraðssaksóknara. Rannsókn og ákæruvald í minni háttar málum verður eftir sem áður í höndum lögreglustjóra, s.s. umferðarlagabrot, þjófnaður, gripdeild, líkamsárásarmál, önnur en stórfelld, skjalafals o.fl.

Ýmis nýmæli

Að öðru leyti er að finna ýmis nýmæli í lögunum frá því sem var:

  • Í lögunum eru ákvæði um aðgang almennings, þ.m.t. fjölmiðla, að gögnum sakamáls, en slíkar reglur voru ekki í gildi skv. eldri lögum. Gert er ráð fyrir að hver sem er geti fengið aðgang að ákæru þremur sólarhringum eftir að hún hefur verið birt ákærða, nema sérstakir almanna- eða einkahagsmunir standi því í vegi.
  • Kveðið er á um skýrslutöku lögreglu af sakborningi og vitnum við rannsókn máls á heildstæðan hátt, sbr. VIII. kafla, en reglur eldri laga höfðu að geyma fremur fá og dreifð ákvæði hvernig henni bæri að haga. Þá er einnig að finna ýmis nýmæli, t.d. óformlega skýrslutöku lögreglu af sjónarvottum og öðrum vitnum.
  • Framsetningu ákvæða laganna um þvingunarráðstafanir er nokkuð breytt frá eldri lögum, sbr. IX.-XIV. kafla en til þvingunarráðstafana teljast m.a. hald á munum, leit og líkamsrannsókn, símahlustun og önnur sambærileg úrræði, handtaka og gæsluvarðhald. Ekki er um teljandi breytingar að ræða en reglurnar eru þó ítarlegri, einkum skilyrði fyrir þessum úrræðum. Þó er að finna nýmæli í tengslum við farbann en því hefur iðulega verið beitt hér á landi í stað þess að grípa til jafnþungbærs úrræðis og gæsluvarðhalds, enda var til skamms tíma tiltölulega auðvelt að koma í veg fyrir að þeir sem sættu farbanni kæmust undan réttvísinni með því að flýja land. Með breyttum aðstæðum hefur hins vegar reynst erfiðara að framfylgja farbanni hin síðari ár. Því er að finna ákvæði um heimild til handa dómara til að gera það að skilyrði, að kröfu lögreglu eða ákæruvalds, að sakborningur sem sætir farbanni hafi á sér sérstakan búnað svo að unnt sé að fylgjast með ferðum hans og aftra því þannig að hann komist úr landi. Ákvæðið ætti einnig við ef lagt væri fyrir sakborning að halda sig á ákveðnum stað eða innan ákveðins svæðis hér innan lands.
  • Veigamiklar breytingar eru gerðar á reglum um sönnun og sönnunargögn í sakamálum, sbr. XVI.-XXI. kafla, ekki síst til að laga þær, eftir því sem við á, að hliðstæðum reglum í lögum um meðferð einkamála. Má sem dæmi nefna sérstakar reglur um skýrslugjöf ákærða fyrir dómi, sbr. XVII. kafla, en ekki var að finna sérreglur um það efni í eldri lögum, heldur hefur í framkvæmd verið stuðst við reglur, sem miðaðar voru við skýrslugjöf sakbornings hjá lögreglu og reglur um skýrslugjöf vitna fyrir dómi.
  • Helsta formbreytingin, sem gerð er á eldri reglum um saksókn, er að ákvæði IV. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sem einkum snúa að því hvernig fara skuli að þegar höfðun sakamáls er háð kröfu brotaþola samkvæmt viðeigandi refsiákvæði, eru felld inn í sakamálalögin, sbr. 144. gr. sml. Hins vegar er áfram mælt fyrir um það í hegningarlögum hvernig brotaþoli skuli standa að höfðun einkarefsimáls af sinni hálfu.
  • Kveðið er á um að ákærða skuli gefinn kostur á að skila skriflegri greinargerð af sinni hálfu, á sama hátt og stefnda í einkamáli, sbr. 1. mgr. 165. gr. Markmiðið með þessu nýmæli er m.a. að jafna aðstöðu aðila, auk þess sem búast má við því að greinargerð ákærða verði til þess að skýra málatilbúnað hans og auðvelda þar með úrlausn máls, ekki síst í þeim málum þar sem sakarefni er flókið.
  • Sérstakur kafli er í lögunum þar sem er að finna reglur um heimild til þess að endurupptaka mál fyrir héraðsdómi í tilvikum, þar sem ákærði hefur ekki sótt þing og máli hefur verið lokið af þeim sökum, sbr. XXIX. kafla, en ákvæði eldri laga þess efnis voru fremur fábrotin.
  • Þá er kveðið heildstætt á um réttarfarssektir í einum kafla, sbr. XXXV. kafla, á sama hátt og gert er í lögum um meðferð einkamála. Er um mun ítarlegri reglur að ræða en í eldri lögum.
  • Loks hafa ákvæði um nálgunarbann, sem áður voru í lögum um meðferð opinberra mála, verið færð yfir í sérstök lög um nálgunarbann, sbr. lög nr. 122/2008.

Sjá lög um meðferð sakamála hér.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum