Hoppa yfir valmynd

Frétt

2. mars 2009 Innviðaráðuneytið

Frumvarp um rannsókn samgönguslysa til umsagnar

Frumvarp til laga um rannsókn samgönguslysa er nú til umsagnar. Felur það í sér sameiningu núverandi rannsóknarnefnda sjóslysa, flugslysa og umferðarslysa í eina og er markmiðið að efla og bæta slysarannsóknir. Umsagnarfrestur er til 1. apríl næstkomandi.

Ný og sameinuð rannsóknarnefnd er í frumvarpinu nefnd Rannsóknarnefnd samgönguslysa. Markmið frumvarpsins er að efla og bæta slysarannsóknir á Íslandi með það að leiðarljósi að auka öryggi í samgöngum. Með sameiningu rannsóknarnefndanna í eina er að leitast við að ná fram hagræðingu og efla um leið rannsókn samgönguslysa og styrkja starfsmenn annars mjög fámennra nefnda í einstökum slysaflokkum svo þeir hafi stuðning og styrk hver af öðrum við stærri rannsóknir.

Þá er ráðgert að fela nefndinni einnig aukin verkefni er lúta að skráningu og greiningu samgönguslysa og samgönguatvika og að annast gerð sérstakrar áætlunar um aðstoð til þolenda samgönguslysa og aðstandenda þeirra sem farast í samgönguslysum, í samvinnu við hagsmunaaðila og aðrar opinberar stofnanir. Í II. kafla eru ráðgerðir tveir möguleikar við uppbyggingu nefndarinnar sem sérstaklega er óskað umsagnar um.

Helstu efnisatriði frumvarpsins eru eftirfarandi:

Í I. kafla er að finna almenn ákvæði um gildissvið og markmið. Gildissviðið er rannsókn samgönguslysa og samgönguatvika er heyra undir hina nýju sameinuðu rannsóknarnefnd sem lagt er til að sett verði á laggirnar með þessu frumvarpi. Nýmæli er ákvæði um orðskýringar sem settar eru fram til hægðarauka og skýringa. Markmið rannsókna er óbreytt frá gildandi lögum um nefndirnar. Fáein nýmæli eru í ákvæði um lögsögu er varða rannsókn sjóslysa.

Í II. kafla er fjallað um Rannsóknarnefnd samgönguslysa og rannsóknarstjóra, þar á meðal skipulag, hæfi, ábyrgð og umsýslu. Nefndin lýtur stjórn formanns sem ráðherra skipar til fimm ára í senn. Formaður ber ábyrgð á og stjórnar daglegum rekstri stofnunar, þar á meðal fjárreiðum hennar, og gætir þess að reksturinn sé í samræmi við gildandi lög og reglugerðir. Ráðgerðir eru tveir möguleikar við uppbyggingu nefndarinnar. Annars vegar að nefndin verði skipuð fimm mönnum, þar af einum formanni auk fjögurra varamanna og hinsvegar að nefndin verði skipuð fimm mönnum, þar af einum formanni auk faghóps tólf sérfræðinga sem væri nefndinni til aðstoðar við rannsókn. Rannsóknir samgönguslysa eru í höndum Rannsóknarnefndar samgönguslysa sem annast rannsókn á einstökum slysaflokkum. Rannsóknarstjórar stýra rannsóknarverkefnum í umboði og á ábyrgð nefndarinnar. Þrír nefndarmenn skulu taka þátt í rannsókn hvers máls auk viðkomandi rannsóknarstjóra hverju sinni. Rannsóknarnefndin skal starfa sjálfstætt og óháð stjórnvöldum. 

Í III. kafla frumvarpsins er kveðið á um málsmeðferð o.fl. Ýmis nýmæli eru í kaflanum sem rekja má til þjóðréttarlegra skuldbindinga sem innleiddar eru. Meðal slíkra nýmæla eru ákvæði er lúta að tilkynningum til erlendra stjórnvalda í kjölfar slyss, ákvæði um þátttöku erlendra ríkja í rannsókn máls, ákvæði um varðveislu rannsóknargagna, ákvæði um tilkynningu til yfirvalda, komi upp grunur um að beitt hafi verið ólögmætum aðgerðum gegn öryggi samgangna og ákvæði um öflun ferðrita úr erlendu loftfari sem lendir hér á landi.

Í IV. kafla frumvarpsins er að finna sameiginleg ákvæði um skýrslugerð rannsóknarnefndarinnar, bæði áfangaskýrslur og lokaskýrslur rannsóknar auk ákvæðis um gerð ársskýrslu nefndarinnar. 

Í V. kafla frumvarpsins er fjallað um heimildir til endurupptöku máls og sérstakar rannsóknir. Þá er nýmæli ákvæði er fjallar um heimild ráðherra til að fela rannsóknarnefndinni að annast skráningu samgönguslysa og alvarlegra samgönguatvika.

VI. kafli frumvarpsins er nýmæli og kveður á um áætlun um aðstoð við þolendur og aðstandendur  þeirra sem farast í samgönguslysum. Í frumvarpinu er ráðgert að Rannsóknarnefnd samgönguslysa verði falið að annast gerð slíkrar áætlunar í samstarfi við þá fjölmörgu hagsmunaaðila og opinberar stofnanir sem koma þurfa að slíkri áætlun.

VII. kafli frumvarpsins kveður á um heimild ráðherra til setningar reglugerðar til frekari útfærslu laganna auk gildistökuákvæðis.

Þeir sem koma vilja á framfæri ábendingum og umsögnum um frumvarpið eru beðnir að gera það í síðasta lagi 1. apríl og senda á netfangið [email protected].

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum