Hoppa yfir valmynd

Frétt

6. mars 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 6. mars 2009


Mætt:
Lára Björnsdóttir formaður (LB) fulltrúi félags- og tryggingamálaráðherra, Eiríkur Jónsson (EJ) tiln. af KÍ, Guðríður Ólafsdóttir tiln. af ÖBÍ og Þroskahjálp, Ása Ólafsdóttir tiln. af dómsmálaráðuneyti, Sigurrós Kristinsdóttir (SK) tiln. af ASÍ, Garðar Hilmarsson (GÓ) tiln. af BSRB, Vilborg Oddsdóttir (VO) tiln. af Biskupsstofu, Björn Ragnar Björnsson (BRB) tiln. af fjármálaráðuneyti, Guðrún Sigurjónsdóttir (GS) tiln. af heilbrigðisráðuneyti, Margrét Sæmundsdóttir tiln. af viðskiptaráðuneyti, Stefán Stefánsson (StSt) tiln. af menntamálaráðuneyti, Kristján Sturluson (KS) tiln. af Rauða krossi Íslands, Stella K. Víðisdóttir (SKV) tiln. af Reykjavíkurborg, Anna Guðrún Björnsdóttir f.h. Gunnars Rafns Sigurbjörnssonar (GRS) tiln. af Sambandi ísl. sveitarfélaga og Guðrún Björk Bjarnadóttir (GBB) tiln. af SA, auk Þorbjarnar Guðmundssonar (ÞG) og Ingibjargar Broddadóttur (IB) starfsmanna.

1. Minnisblað frá 2. fundi stýrihópsins

Minnisblaðið samþykkt.

2. Ráðgjafar um rannsóknir

Á fundinn mættu eftirtaldir fræðimenn: Sigrún Júlíusdóttir, prófessor við HÍ, Guðný Björk Eydal, dósent við HÍ, Guðrún Kristinsdóttir, prófessor við HÍ, Þórólfur Þórlindsson, forstöðumaður Lýðheilsustöðvar, Stefán Hrafn Jónsson Lýðheilsustöð, Stefán Ólafsson, prófessor við HÍ, og Rafn Jónsson Lýðheilsustöð. Voru eftirfarandi viðfangsefni lögð fyrir ráðgjafahópinn:

Hvað fyrir liggur af rannsóknum bæði innlendum og erlendum um áhrif og afleiðingar efnahagskreppu á líf fjölskyldna og einstaklinga í bráð og lengd? Ef tök eru á væri gott af fá dregnar fram helstu niðurstöður. Nauðsynlegt er að huga sérstaklega að jafnréttisjónarmiðum, svo sem jafnrétti kynjanna og innflytjendum, og huga einnig að einstökum hópum, svo sem börnum og ungmennum, ungu fólki sem er að hefja störf á vinnumarkaði, þeirra sem eru að nálgast eftirlaunaaldur o.s.frv.
Tillögur um hvað sé mikilvægt að rannsaka og með hvaða hætti það yrði gert.
Hvernig má fylgjast með þeirri þróun sem kreppan mun hafa á mannlífið/heimilin/velferðarsamfélagið næstu árin með viðurkenndum mælitækjum.

Umræður:

Í máli allra gestanna kom fram vilji til að vinna með velferðarvaktinni að framangreindum verkefnum eftir því sem þau samrýmdust öðrum verkum á sviði fræðimannanna. Í upphafi kom einnig fram að Rannsóknasetur í barna og fjölskylduvernd við HÍ er reiðubúið að vinna með velferðarvaktinni.

Að mati félagsráðgjafanna í hópnum eru eftirtaldir hópar berskjaldaðri en aðrir gagnvart afleiðingum kreppunnar og þyrfti að beina sérstökum aðgerðum gagnvart þeim: Einstæðir tekjulágir foreldrar, foreldrar sem eru í sambúð/hjónabandi, en eru að kikna undan fjárhagsáhyggjum, foreldrar sem eiga von á fyrsta barni og foreldrar sem eru atvinnulausir. Þá þurfi að huga sérstaklega að þeim sem veita fjölskyldum og einstaklingum í erfiðleikum aðstoð, það er þeim sem „hjálpa hjálpurunum“.

Mikið er til af rannsóknum um afleiðingar efnahagskreppu. Á Lýðheilsustöð er verið að leggja síðustu hönd á rannsókn um heilsu og líðan og er niðurstaðna að vænta innan skamms. Fjölmargar aðrar rannsóknir voru nefndar, þar með taldar árlegar lífskjarakannanir Hagstofunnar, sem því miður eru heldur seint á ferð, íslensk könnun meðal langtíma-atvinnulausra og könnun meðal langtímanotenda félagsþjónustunnar.

Upplýsingar úr erlendum rannsóknum og samstarf við útlönd er mikilvægt, en meðal annars liggja upplýsingar fyrir hjá WHO. Norrænt samstarf var nefnt sérstaklega en nú fer fram endurmat á norræna velferðarkerfinu og koma Stefán Ólafsson og Guðný Björk Eydal að því verki fyrir Íslands hönd. Meðal annars er sjónum beint að fátækt og „jaðarhópum“ samfélagsins.

Spurt var hvort rannsóknasamfélagið geti verið á sjálfstæðri vakt og spunnust um það fróðlegar umræður. Var rætt um samræmingu á skráningu stofnana og hugtakið félagsvísar kreppunnar og félagslegt bókhald nefnd í þessu sambandi. Reykjavíkurborg heldur utan um ákveðnar tölulegar upplýsingar, verklag þeirra er hugsanlega til eftirbreytni.

Einnig rætt um virkniaukandi aðgerðir og að kanna þyrfti hvaða aðgerðir virki best.

Gestir fundarins voru beðnir um að senda starfsmönnum stýrihópsins yfirlit yfir kannanir og skýrslur sem til eru á netinu ásamt slóðinni þar sem þær er að finna á veraldarvefnum.

3. Vefsvæði velferðarvaktarinnar opnað

Félags- og tryggingamálaráðherra, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, opnaði nýtt vefsvæði veraldarvaktarinnar. Hún fagnaði um leið störfum stýrihópsins og sagðist vænta mikils af honum. Einnig þakkaði hún ráðgjöfunum úr fræðasamfélaginu framlag þeirra.

4. Skil hópanna

Farið var yfir netpóst sem sendur var stýrihópnum 5. mars 2009 með leiðbeiningum um áfangaskýrslur hópanna sem eiga að vera tilbúnar 13. mars næstkomandi. Gert er ráð fyrir þriggja til fjögurra síðna samantekt. Fyrirhugað er að þessar skýrslur leggi grunninn að áfangaskýrslu stýrihópsins til félags- og tryggingamálaráðherra sem gert er ráð fyrir að verði tilbúin 20. mars næstkomandi.

Næsti fundur verður föstudaginn 13. mars 2009 kl. 14.00–16.00 í félags- og tryggingamálaráðuneyti.

Fundargerð ritaði Ingibjörg Broddadóttir.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum