Hoppa yfir valmynd

Frétt

10. mars 2009 Utanríkisráðuneytið

4000 ársverk gegn atvinnuleysi

Össur Skarphéðinsson skrifar:

:Á föstudag samþykkti ríkisstjórnin ellefu tillögur sem ég lagði fram úr starfi sérstaks samstarfshóps átta ráðuneyta sem á með öllum tiltækum ráðum að vinna að því að skapa störf og sporna gegn atvinnuleysi. Einhugur var um það í stjórninni að vinna að framgangi þessara tillagna sem gætu skapað ríflega 4000 ársverk á næstunni. Verkefnin tengjast fjölda stofnana, og byggja einnig á hugmyndum sem við höfum sótt til atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar. Þessi verkefni leysa síður en svo öll vandamál dagsins. Þúsundir ársverka skipta þó verulegu máli, og þessi aðgerð sýnir að í erfiðri stöðu þjóðarinnar leitar ríkisstjórnin allra leiða til að draga úr atvinnuleysi. Fleiri hugmyndir eru til skoðunar, og samstarfshópurinn er síður en svo hættur störfum.

Störfin eru af mjög margvíslegum toga. Þau skapast í byggingariðnaði, framkvæmdum við snjóflóðavarnir, gróðursetningu, grisjun og stígagerð, orkuviðhaldi og orkusparnaði, minni útflutningi óunnins fiskjar, hækkun endurgreiðslna vegna kvikmyndagerðar, þróunarverkefni í ferðaþjónustu, frumkvöðlasetur í Reykjavík, samstarfsverkefni iðnaðarráðuneytisins og Atvinnuleysistryggingasjóða um ráðningu sérfræðinga af atvinnuleysiskrá til nýsköpunarfyritækja, verulegar bætur á skattaumhverfi nýsköpunarfyrirtækja sem gerir þeim kleift að láta innri vöxt og fjölgun starfa verða á Íslandi, og einn tillagan sem samþykkt var er um fjölgun þeirra sem njóta listamannalauna. Þessi upptalning endurspeglar breidd framtaksins, enda eru sem fyrr segir átta af tólf ráðuneytum með í þessu átaki gegn atvinnuleysi.

Frágangur og viðhald
Í Reykjavík blasa víða við fokheldar glæsibyggingar sem áttu að hýsa atvinnulíf í útþenslu. Hugvitsamir byggingarmenn hafa bent á þjóðhagslega hagkvæmni þess að ljúka þessum byggingum og koma þeim í not. Ein leið til þess er að hraða útboði á leiguhúsnæði fyrir þær stofnanir ríkisins sem þegar hafa fengið heimildir til þess á fjárlögum að ráðast í úrbætur á sínum húsnæðismálum. Hér er um að ræða allmargar stofnanir og vinna við frágang á húsnæði fyrir þær myndi skapa um 750 ársverk. Útgjöldin fyrir ríkið koma fram síðar í leiguverði en þýða ekki bein útgjöld nú þegar. Það er mikilvægt atriði meðan verið er að vinna niður fjárlagahalla. Breytingar á fokheldu húsnæði eru mjög mannaflsfrekar, og hafa skjót áhrif til hins betra á vinnumarkaði. Þetta er um leið góð leið til þess að skapa veltu á skeiði stöðnunar og samdráttar.                                                                Hið sama má segja um hækkun á endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu á byggingarstað í 100% sem nú er ákveðið að verði einnig látin ná til sumarbústaða og bygginga sveitarfélaga. Rýmkun á reglum Íbúðalánasjóðs vegna viðhalds félagslegra íbúða mun sömuleiðis skapa umtalsverðan fjölda ársverka.

Kvikmyndaverkefni
Það skiptir líka máli að ýta undir fjölgun starfa í skapandi afþreyingu og listum. Hækkun endurgreiðslna vegna kvikmyndagerðar úr 14% í 20% gæti þýtt 120- 150 ársverk í atvinnugrein sem skiptir máli á Íslandi. Þrjú stór kvikmyndaverkefni, bandarísk víkingamynd í stjórn Baltasars, bresk-ástralska Toma verkefnið og bresk sjónvarpsmynd BBC, eru í burðarliðnum. Þau skapa grundvöll fyrir íslensk kvikmyndateymi sem geta síðan aflað fleiri verkefna á sviði alþjóðlegrar auglýsinga- og heimildamyndagerðar.
Hér hafa aðeins verið nefnd tvö dæmi af mörgum sem ásamt ívilnunum til rannsókna og fjárfestinga í nýsköpun geta skipt verulegu máli í atvinnusköpun á næstu mánuðum. Samstarfshópur ráðuneytanna heldur áfram störfum, og þeim ellefu tillögum sem ríkisstjórnin samþykkti um sköpun fjögur þúsund ársverka á eftir að fjölga. Ég lít á það sem forgangsverkefni mitt sem ráðherra að gera allt sem hægt er til að draga úr því sem ég lít á sem mesta böl sérhvers manns – að hafa ekki atvinnu fyrir hendur sínar og huga.


Greinin birtist í DV þann 10. mars 2009.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum