Hoppa yfir valmynd

Frétt

3. apríl 2009 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra á ráðstefnunni Evrópskt rannsókna- og styrkjaumhverfi

Ágætu fundargestir,

Það er mér sérstök ánægja að fá að koma hingað og kynnast nýjum vaxtarsprotum í öflugu starfi Landgræðslunnar. Þá er það alveg sérstaklega ánægjulegt að í dag skuli hafa verið undirrituð viljayfirlýsing Landgræðslunnar og Háskóla Íslands um Rannsókna- og fræðasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi sem starfi að hluta hér í Gunnarsholti. Þetta er stór áfangi, í annars langri og merkri sögu hinnar aldargömlu Landgræðslu. Einnig opnar þetta samstarf Háskóla Íslands, bæði nemendum og kennurum aðgang að einstökum brunni reynslu og þekkingar sem er til staðar hjá Landgræðslunni, til viðbótar hinni glæsilegu aðstöðu sem hér hefur verið byggð upp hér á staðnum. Ég er sannfærð um að setur af þessu tagi mun auðga báðar stofnanir og færa okkur fram á veg í þessum mikilvæga málaflokki; gróður- og jarðvegsverndarstarfi og endurheimt glataðra eða hnignandi vistkerfa.

Það er athyglisvert að hér í Gunnarsholti er að byggjast upp merkilegur klasi fræða og þekkingar í kringum hefðbundið starf Landgræðslunnar. Rannsókna- og fræðasetur Háskóla Íslands bætist nú við Hekluskógaverkefnið, hinn alþjóðlega Landgræðsluskóla í tengslum við Háskóla Sameinuðu Þjóðanna og samstarf við Háskólanet Suðurlands, sem hér eru fyrir.

Við lifum á viðsjárverðum tímum. Við okkur blasa tvö risavaxin viðfangsefni, sem heimsbyggðin mun þurfa að takast á við af mikilli alvöru á næstu misserum. Annað er efnahagskreppan, en hitt er jafnvel enn alvarlegra og varðar einfaldlega framtíð okkar hér á jörðinni, nefnilegar nauðsynlegar aðgerðir gegn loftslagsbreytingunum.

Þessi verkefni eiga það sameiginlegt að þau verða ekki leidd til lykta nema með samstilltu átaki þjóða heims. Og það sem meira er, lausnin hlýtur að verða að byggja á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar, að þörfum okkar í samtímanum verði mætt með það að markmiði að ekki verði dregið úr möguleikum komandi kynslóða til þess að mæta sínum þörfum. Þeir sem skynja dýpt hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar vita að það markmið næst ekki nema að auðlindir jarðar verði nýttar af varúð þannig að höfuðstóll þeirra verði ekki skertur. Því miður hefur þetta viðhorf legið lágt um tíma, þegar skammtímahugsun, stundarhagsmunir og skyndigróði hafa verið ríkjandi viðmið.

Þessa dagana stendur yfir í Bonn í Þýskalandi fyrsti formlegi samningafundur aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál, á loftslagsárinu mikla 2009. Ísland er ein af þremur þjóðum Kyoto bókunarinnar sem hafa valið að nýta landgræðslu sem loftslagsaðgerð til að mæta tölulegum skuldbindingum sínum. Íslendingar eru þar í fararbroddi, því hinar tvær þjóðirnar, Japan og Rúmenía, hafa ekki nýtt þessa leið nema að litlu leyti. Aðrar þjóðir líta því til þess hvernig við, með íslensku Landgræðsluna í fararbroddi förum að.

Það ætti því að vera nokkuð ljóst hversu mikilvægt landgræðslustarfið er í raun í hugum okkar sem förum með stjórnsýslu umhverfismála. En um leið setur það miklar skyldur á herðar Landgræðslunnar, sem þarf að standa skil á tölulegum gögnum og vísindalegum niðurstöðum um kolefnisbúskap landgræðslusvæða til Loftslagssamnings Sameinuðu Þjóðanna. Að því, veit ég, er ötullega unnið hér í Gunnarsholti og væntanlega mun sú starfsemi enn eflast með samstarfinu við Háskóla Íslands.

Ísland rekur annað mál í loftslagsviðræðunum tengt gróður og jarðvegsvernd. Íslenska sendinefndin hefur lagt fram tillögu um að endurheimt votlendis verði viðurkennd sem loftslagsaðgerð. M.ö.o. að þjóðum verði gert kleift að telja sér til tekna í losunarbókhaldi slík verkefni, enda geti slík endurheimt dregið mjög úr þeirri losun sem verður þegar lífrænn jarðvegur votlendanna brotnar niður. Áreiðanlegar vísbendingar eru fyrir því að röskuð votlendi standi að baki um tíunda hluta allrar losunar gróðurhúsalofttegunda í heiminum. Á þessari stundu er óljóst hvort tillagan nær fram að ganga og væntanlega mun það ekki skýrast endanlega fyrr en á lokafundinum í Kaupmannahöfn í desember.

Farið var miklu offari í framræslu votlendis á síðustu öld, en þorri alls votlendis á láglendi hefur verið ræstur fram. Þetta olli mikilli röskun á lífríki landsins, bæði gróðri og dýralífi. Lausleg könnun á vegum umhverfisráðuneytisins bendir hins vegar til að um ¼ hluti þess votlendis sem var ræstur fram hafi ekki verið tekinn til túnræktar eða sé nýttur til beitar. Þar geta því legið veruleg sóknarfæri til endurheimtar, án þess að gengið verði á hagsmuni landbúnaðarins.

Fáist tillagan samþykkt og endurheimt votlendis verði viðurkennd loftslagsaðgerð mun það kalla á rannsóknir og verulegt vísindalegt utanumhald. Þar munu liggja verulega krefjandi og spennandi tækifæri fyrir rannsókna- og fræðasamfélagið hér í Gunnarsholti að takast á við.

Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi menntunar og rannsókna fyrir árangursríkt gróður- og jarðvegsverndarstarf. Hér í dag hafa verið kynningar á verkefnum og þeim tækifærum sem felast í evrópsku rannsóknasamstarfi. Samningur Landgræðslunnar og Rannsóknamiðstöðvar ESB sem hér var kynntur fyrr í dag býður upp á spennandi tækifæri. Ég átti þess einmitt kost fyrir skemmstu að ræða við Simon Kay sérfræðing frá Rannsóknamiðstöð ESB á, þar sem hann hafði góð orð um þetta samstarf og tækifærin sem ættu að vera fólgin í því fyrir okkur. Í þessu, líkt og svo mörgu, á við að „sveltur sitjandi kráka en fljúgandi fær".

Ég við að lokum þakka Landgræðslu ríkisins og Háskólafélagi Suðurlands fyrir að standa fyrir þessari ráðstefnu og öllum þeim sem tóku þátt í störfum hennar. Það er vonandi að frumkvæði Landgræðslunnar með ráðstefnunni verði til að efla þátttöku íslenskra aðila í evrópskum samstarfsverkefnum á sviði hverskonar landnýtingar, þar sem sjálfbær þróun er leiðarstjarnan.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum