Hoppa yfir valmynd

Frétt

16. apríl 2009 Utanríkisráðuneytið

Samstarf við Dóminíku um nýtingu jarðhita

Dóminíka er eldfjallaeyja í Karabíahafi og þar er að finna mikinn ónýttan jarðhita. Íbúar eyjarinnar eru að miklu leyti háðir innfluttu jarðefnaeldsneyti til raforkuvinnslu og samgangna. Raforkuvinnsla árið 2007 nam um 86 GWh og er því talið að 15 MW jarðvarmavirkjun myndi duga fyrir heimamarkað.

Á nærliggjandi eyjunum Gvadelúp og Martiník er þó veruleg raforkuþörf til staðar, og er uppsett afl 860 MW, sem að stærstum hluta kemur frá olíukynntum rafstöðvum.

Með samstarfssamningi milli Íslands og Dóminika er lagður grunnur að hugsanlegri aðkomu íslenskra jarðhitasérfræðinga í uppbyggingu á allt að 100 MW jarðvarmavirkjunar á Dóminíku. Forsendur þess að virkjunin verði byggð er að lagðir verði sæstrengir til eyjanna Gvadelúp og Martiník og þar með væri hægt að selja raforku til almennings frá jarðhitavirkjun á hagstæðari kjörum en bjóðast í dag með bruna á jarðefnaeldsneyti.

Samstarfsverkefni Íslands og Dóminíku er framlag Íslands til EDIN, samstarfssamnings Íslands, Bandaríkjanna og Nýja-Sjálands um þróun endurnýjanlegra orkunotkunar eyríkja. Frekari upplýsingar um samstarfið má lesa á heimasíðu EDIN: (http://edinenergy.org/).

Frekari upplýsingar um nýtingu jarðhitaauðlinda á Karíbaeyjum má finna í erindi frá ársfundi Orkustofnunar 31. mars sl. (http://os.is).

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum