Hoppa yfir valmynd

Frétt

30. apríl 2009 Heilbrigðisráðuneytið

WHO eykur viðbúnaðarstigið

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin jók viðbúnaðarstig sitt í fimm í gærkvöld. Þetta þýðir meðal annars að aðildarþjóðir WHO eru beðnar um að virkja viðbúnaðaráætlanir sínar vegna inflúensunnar A/H1N1. Þessi breyting af hálfu WHO hefur engin áhrif hér, enda viðbúnaðaráætlun þegar virk, og hér er enn unnið á hættustigi (stigi 4).

Í dag verða fundir með viðbragðsaðilum í allan dag þar sem farið verður yfir verkefni sem tilteknum aðilum er falið að leysa á hættustigi.

Haldinn hefur verið samráðsfundur á Keflavíkurflugvelli þar sem upplýsingum var miðlað og ákvarðanataka fór fram. Fræðslufundur með starfsfólki hefur einnig verið haldinn. Ekki verður gripið til innkomuskimunar þar sem fullvíst er talið að slík aðgerð þjóni litlum tilgangi.

Í flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli hefur verið opnuð inflúensumóttaka og er hún mönnuð heilbrigðisstarfsmönnum frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Ferðamenn eiga þess kost að leita þangað hafi þeir inflúensulík einkenni.

Rétt er að taka fram að enginn hefur greinst með smit á Íslandi og sýkingar utan Mexíkó eru vægar enn sem komið er.

Upplýsingum hefur verið miðlað til heilbrigðisþjónustu og viðbragðsaðila. Heilbrigðisstarfsmenn hafa verið hvattir til þess að senda sýni frá sjúklingum með inflúensulík einkenni til greiningar og leiðbeiningum um notkun veirulyfja hefur verið dreift.

Búið er að koma á sambandi við þá flugrekstaraðila sem koma að því að flytja fólk til landsins. Ætlunin er að afhenda þeim upplýsingablöð um inflúensuna sem dreift verður til flugfarþega.

Staðfest tilfelli að morgni dags 30. apríl 2009

10 tilfelli á Spáni

3 tilfelli í Þýskalandi

5 tilfelli í Bretlandi

2 tilfelli í Frakklandi

19 tilfelli í Kanada

2 tilfelli á Kosta Ríka

2 tilfelli í Ísrael

26 tilfelli í Mexíkó

1 tilfelli í Perú

14 tilfelli á Nýja Sjálandi

91 tilfelli í Bandaríkjunum

Samtals: 155 staðfest tilfelli

Athygli fjölmiðla er vakin á stöðugum, áreiðanlegum upplýsingum um heimsfaraldur inflúensu, sem birtast að jafnaði á vef Evrópsku sóttvarnastofnunarinnar (ECDC) á slóðinni http://ecdc.europa.eu/ og einnig er vakin athygli á www.influensa.is

Að gefnu tilefni vill sóttvarnalæknir árétta að andlitsgrímur fyrir almenning gera lítið gagn til að verjast inflúensu. Andlitsgrímur eru hins vegar gagnlegar heilbrigðisstarfsmönnum sem annast sjúklinga og það minnkar smithættu ef sýktur einstaklingur ber slíka grímu.

Handþvottur og notkun handspritts er áhrifarík aðgerð til að minnka hættu á smiti. Á  þessu stigi er ekki talin ástæða til að ráðleggja einstaklingum að forðast umgang við aðra einstaklinga.

Notkun veirulyfja er einungis ráðlögð sjúklingum sem taldir eru líklegir af lækni að vera með inflúensu og fá sjúklingar lyfin afhent á heilsugæslustöð og/eða sjúkrahúsi. Fyrirbyggjandi notkun lyfjanna er ekki ráðlögð að sinni og einstaklingum er ekki ráðlagt að birgja sig upp af lyfjum heima.

 

Hjálögð er stöðuskýrsla ECDC frá kl. 08:00 í morgun:Stoduskyrlsa_ECDC_300409_0800

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum