Hoppa yfir valmynd

Frétt

5. maí 2009 Utanríkisráðuneytið

Málþing um áhrif kreppunnar á ríki Afríku

Málþing um áhrif efnahagskreppunnar á ríki Afríku verður haldið á vegum Norrænu Afríkustofnunarinnar, utanríkisráðuneytisins, Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og Félags- og mannvísindadeildar Háskóla Íslands fimmtudaginn 7. maí næstkomandi. kl. 14.00 – 17.00 í Háskóla Íslands, Öskju, Sturlugötu 7, Reykjavík.

Verkefna- og ráðgjafaráð Norrænu Afríkustofnunarinnar kemur saman í Reykjavík þann 8. maí næstkomandi og af því tilefni er boðið upp á málþing um áhrif kreppunnar á Afríku. Erindi halda þau Ann Pettifor hagfræðingur og sérfræðingur í skuldum og fjármálakreppum, Fantu Cheru forstöðumaður rannsókna hjá Norrænu Afríkustofnuninni og Stefán Ólafsson prófessor við Háskóla Íslands. Jafnframt verður kynnt bók Kristínar Loftsdóttur prófessors við Háskóla Íslands, “The Bush is Sweet: Globalization, Identity and Power Among Wodaabe Fulai in Niger” sem er nýkomin út á vegum Norrænu Afríkustofnunarinnar.

Norræna Afríkustofnunin var stofnuð árið 1962 og hefur bækistöðvar sínar í Uppsölum í Svíþjóð. Þetta er sjálfstæð samnorræn stofnun þar sem stundaðar eru rannsóknir á málefnum Afríku jafnframt því sem stofnunin er miðstöð gagna og upplýsinga um lönd álfunnar á Norðurlöndum. Stofnunin stuðlar einnig að samstarfi norrænna og afrískra fræðimanna auk þess að dreifa upplýsingum um málefni Afríku á Norðurlöndunum.

Fjöldi íslenskra háskólanema, sem hafa stundað rannsóknir í Afríku hafa þegið styrk frá Norrænu Afríkustofnuninni. Einnig hafa íslenskir fræðimenn og blaðamenn nýtt sér aðstöðuna sem fyrir hendi er í Uppsölum til rannsókna og frekari menntunar og tekið þátt í námskeiðum og málþingum sem þar eru í boði.

Málþingið fer fram á ensku og er opið öllum.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum