Hoppa yfir valmynd

Frétt

8. maí 2009 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Úthlutað úr Kvískerjasjóði

Merki Kvískerjasjóðs
Kvískerjasjóður

Nýlega úthlutaði Kvískerjasjóður styrkjum ársins 2009 og er það sjötta úthlutun frá stofnun hans árið 2003. Tólf umsóknir bárust og var samanlögð upphæð umsókna á sjöttu milljón króna. Að þessu sinni er úthlutað til sjö verkefna.

Verkefnin sem hlutu styrk eru: 

  • Eldgos í Öræfajökli 1362, Dr. Ármann Höskuldsson.
  • Heimildarúttekt á fornum minjum á Kvískerjum og nágrenni, Elín Ósk Hreiðarsdóttir.
  • Farleiðir og vetrarstöðvar Skúma á Breiðamerkursandi, Ellen Magnúsdóttir.
  • Uppgröfur á miðaldarbýlinu Bæ í Öræfasveit, Bjarni F. Einarsson.
  • Hörfun jökla og gróðurframvinda. Dr. Kristín Svavarsdóttir og Dr. Þóra Ellen Þórhallsdóttir.
  • Söfnun á gömlum myndum og skrásetning upplýsinga með viðtölum, Svavar Sigurjónsson.
  • Rannsóknir á jökulhlaupum í Skaftárkötlum, Dr. Tómas Jóhannesson og Dr. Þorsteinn Þorsteinsson


Hlutverk Kvískerjasjóðs er að stuðla að og styrkja rannsóknir á náttúrufari og menningu í Austur Skaftafellssýslu.  Frá upphafi hefur sjóðurinn stutt við margvísleg metnaðarfull verkefni sem bæði eru mikilvægt framlag inn í vísindaheiminn en ekki síður munu þau geta gagnast til að styrkja framþróun byggðar í Austur Skaftafellssýslu.  Á heimasíðu Kvískerjasjóðs mun í framtíðinni, eftir því sem mögulegt er og í samráði við styrkþega, verða hægt að nálgast upplýsingar um niðurstöður verkefna.

Það er mat sjóðsstjórnar að Kvískerjasjóður hafi sannað gildi sitt, verið hvati að margvíslegum rannsóknum í Austur Skaftafellssýslu og þannig stuðlað að framhaldi þess umfangsmikla vísindastarfs systkinanna á Kvískerjum eins og honum var ætlað við stofnun.

Eldgos í Öræfajökli 1362

Hér er um að ræða framhaldsstyrk þriðja sinni til Dr. Ármanns Höskuldssonar við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands að upphæð kr. 630.000. Markmið verkefnisins er að rekja hvernig eldgosið 1362 gekk fyrir sig. Sumarið 2008 var farið með jarðsjá um láglendið framan við Öræfajökul í þeim tilgangi að skoða dreifingu gosefna frá 1362, en auðvelt er að greina gjóskuna í sniðum teknum með jarðsjánni. Komandi sumar er ætlunin að taka kjarnasýni undan Hnappavöllum og á Hoffjalli og Sandfellsheiði og mæla snið í gjóskuna þar.  Eitt  helsta markmið rannsóknarinnar er að greina spor í gjóskunni eftir gusthlaup ofan úr gíg eldstöðvarinnar.

Heimildaúttekt á fornum minjum á Kvískerjum og nágrenni

Elín Ósk Hreiðarsdóttir, Fornleifastofnun Íslands hlýtur styrk að upphæð kr. 380.000.

til þess að hefja vinnu við heimildaöflun um fornleifar og sögustaði á Kvískerjum og öllum nágrannajörðum í Hofshreppi.  Markmið rannsóknarinnar  er að safna upplýsingum um  þekktar fornleifar á svæðinu, jafnt frá fyrstu öldum sem og síðar. Verkefnið er yfirgripsmikið og heimildakönnun fornleifa í Hofshreppi er ætlað að skila sjálfstæðum niðurstöðum um sögu og minjar en gæti einnig þjónað sem grunnur til að byggja frekari rannsóknir á menningarminjum í Hofshreppi.

Farleiðir og vetrarstöðvar skúma á Breiðamerkursandi

Ellen Magnúsdóttir, meistaranemi við Líffræðiskor Háskóla Íslands, hlýtur styrk að upphæð kr. 300.000. Þróaðir hafa verið gagnritar sem komið er fyrir á fuglum í því sjónarmiði að fylgjast með farleiðum þeirra.  Slíkir gagnaritar voru settir á 40 fullorðna skúma á Breiðamerkursandi sumarið 2008.  Ætlunin er að endurheimta gagnaritana komandi sumar og vinna úr upplýsingum sem þeir geyma. Meginmarkmið verkefnisins er að lýsa áður óþekktum farleiðum og vetrarstöðum skúma hér á landi, en lykilsvæði þeirra er á söndum A-Skaftafellssýslu.

Uppgröfur á miðaldarbýlinu Bæ í Öræfasveit

Bjarni F. Einarsson, Fornleifafræðistofunni, hlýtur styrk að upphæð kr. 300.000.

Unnið hefur verið við uppgröft á Bæ í Öræfasveit nokkur undanfarin ár, en býlið grófst undir gjósku í Öræfajökulsgosinu 1362.  Uppgreftri er að mestu lokið, en enn er eftir að rannsaka nokkur rými á bænum svo og bæjarhlaðið. Verkefnið hefur verið unnið í samstarfi nokkurra aðila og hefur Kvískerjasjóður áður veitt Fornleifafélagi Öræfa styrki til verkefnisins. Styrkur er veittur nú til að ljúka þessari viðamiklu fornleifaskoðun.

Hörfun jökla og gróðurframvinda

Dr. Kristín Svavarsdóttir, Landgræðslu ríkisins og Dr. Þóra Ellen Þórhallsdóttir, Háskóla Íslands  hljóta styrk að upphæð kr. 650.000.

Umsækjendur hafa stundað rannsóknir á gróðurframvindu á Skeiðaársandi um nokkurt skeið.  Gróður á sandinum hefur verið kortlagður m.a. með hjálp gervitungla og litið hefur verið sérstaklega til landmáms og útbreiðslu birkis. Markmið þessa verkefnis er að nýta einstakar aðstæður þar sem margir hörfandi jöklar bjóða upp á ígildi náttúrulegrar tilraunar með endurtekningum þar sem unnt verður að prófa tilgátur um gróðurframvindu og þróun vistkerfa sem sjaldnast er hægt að sannreyna við raunverulegar aðstæður.  Með samanburði á gróðri á stöðum sem komið hafa undan jökli á misjöfnum tíma verður hægt að ákvarða gróðurbreytingar yfir 120 ára tímabil.

Söfnun á gömlum myndum og skrásetning upplýsinga með viðtölum

Svavar Sigurjónsson frá Litla-Hofi í Öræfasveit hlýtur styrk að upphæð kr. 375.000.

Svavar hefur safnað gömlum ljósmyndum úr Öræfum (þær elstu frá því um 1910) og skannað þær inn á tölvu.  Tilgangur verkefisins er að skrá myndirnar og afla upplýsinga með samtölum við eldri Öræfinga um það hvað þær hafa að geyma.  Svavar hyggur einnig á skoðun skráðra myndasafna m.a. þeirra Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings og Kristjáns Eldjárn fornleifafræðings í þeim tilgangi að afla í tíma frekari upplýsinga um fólkið og sögu Öræfasveitar sem ljósmyndirnar geyma.

Rannsóknir á jökulhlaupum í Skaftárkötlum

Dr. Tómas Jóhannesson og Dr. Þorsteinn Þorsteinsson hljóta styrk að upphæð kr. 365.000.

Undanfarin 3 ár hafa umsækjendur staðið að rannsóknarverkefni í Skaftárkötlum í Vatnajökli með tilstyrk margra aðila m.a. Kvískerjasjóðs. Borað hefur verið niður í gegn um 300 m þykka íshellu í Vestari- og Eystri Skaftárkatli.  Hiti hefur verið mældur í lónum og sýni verið tekin til jerðefnafræðilegra greininga og örverurannsókna.  Þá hefur verið fylgst náið með hreyfingu jökuls og ísskriði við katlana. Veittur er styrkur í áframhald þessara rannsókna.

Heimasíða Kvískerjasjóðs.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum