Hoppa yfir valmynd

Frétt

22. maí 2009 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Vegna umfjöllunar um samning um háhraðanettengingar

Í ljósi frétta um að ríkið styrki uppbyggingu á svæðum markaðsaðila með útboði sínu á háhraðanettengingum telur ráðuneytið ástæðu til að gera stuttlega grein fyrir verkefninu og undirbúning þess.


Verkefnið háhraðanettengingar til allra landsmanna er eitt af mikilvægustu verkefnum gildandi fjarskiptaáætlunar. Verkefnið felst í því að veita lögheimilum með heilsársbúsetu og fyrirtækjum með heilsársstarfsemi utan markaðssvæða, kost á háhraðanettengingu með skilgreindum lágmarksgæðum. Á grundvelli fjarskiptaáætlunar og laga um fjarskiptasjóð var stjórn fjarskiptasjóðs var falinn undirbúningur útboðs á þessu verkefni í samstarfi við Ríkiskaup. Með samningi um þetta verkefni sem undirritaður var 25. febrúar sl. var stigið eitt mesta framfaraskref síðari ára í uppbyggingu fjarskipta í hinum dreifðari byggðum. Verkefnið setur Ísland meðal fremstu þjóða heims hvað varðar aðgengi og gæði háhraðanettenginga. Góð fjarskipti eru einn af hornsteinsteinum nútímasamfélags og grundvöllur öflugrar atvinnuuppbyggingar á landsbyggðinni. Það er því mikilvægt að allir landmenn hafi aðgang að háhraðanettengingum óháð búsetu.

Einn umfangsmesti þáttur í undirbúningi fyrir útboðið var kortlagning á útbreiðslu og útbreiðsluáformum markaðsaðila. Tilgangurinn með þeirri kortlagningu var að afmarka þá staði sem útboðið átti að ná til í samræmi við ríkisstyrkja- og samkeppnisreglur á EES svæðinu.

Ríkiskaup f.h. fjarskiptasjóðs auglýstu upphaflega eftir útbreiðsluáformum markaðsaðila 31. mars 2007. Í kjölfar auglýsingarinnar sendi fjöldi fyrirtækja inn upplýsingar um uppbyggingaráform. Úrvinnsla þessara gagna tók mun lengri tíma en áætlað var m.a. vegna ófullnægjandi framsetningar gagna og vegna gagna sem voru augljóslega röng eða áforma sem voru með öllu óraunhæf. Eitt af þeim fyrirtækjum sem lögðu sitt af mörkum við þennan undirbúning var fyrirtækið eMAX sem þá var í eigu fyrirtækisins WBS, en það fyrirtæki hafði uppi metnaðarfull og spennandi áform sem því miður hafa ekki gengið eftir.
Starfsmenn og verktakar fjarskiptasjóðs veittu þessum fyrirtækjum þá aðstoð við kortlagningu sem óskað var eftir. Á endanum skiluðu þessi fyrirtæki vönduðum upplýsingum til sjóðsins. Samanlögð útbreiðsla allra markaðsaðila afmörkaði síðan umfang útboðs sjóðsins. Útboðsgögnin sjálf ásamt staðalista voru í framhaldinu gefin út 27. febrúar 2008. Á þeim lista voru 1.118 staðir.

Tilboð í verkefnið voru opnuð 4. september 2008 eftir að tilboðsfrestur hafði verið framlengdur m.a. vegna breytinga á staðalista þar sem að fyrirtæki voru að breyta útbreiðsluáformum á tilboðsfresti. Engar athugasemdir vegna staðalista útboðsins bárust frá eMAX á tilboðsfresti. Eftir opnun tilboða hófust skýringarviðræður við Símann hf. sem fékk langflest stig fyrir tilboð sitt samkvæmt valtöflu útboðslýsingarinnar. Þær viðræður töfðust eins og áður hefur komið fram opinberlega. Um síðustu áramót lá síðan fyrir að áform tveggja markaðsaðila um uppbyggingu á markaðslegum forsendum höfðu ekki gengið eftir. Áform þessara aðila náðu m.a. til 670 staða þar sem ekkert annað fyrirtæki hugðist byggja upp þjónustu á markaðslegum forsendum samkvæmt upplýsingum sem markaðsaðilar höfðu veitt sjóðnum. Þessir staðir féllu því réttilega undir háhraðaverkefni sjóðsins. Til þess að tryggja að upplýsingar sjóðsins um áform væru réttar var ákveðið engu að síður að auglýsa eftir markaðsáformum á þessum tilteknu 670 stöðum. Það var gert með auglýsingu í Morgunblaðinu 23. janúar s.l. Hvorki eMAX né aðrir markaðsaðilar svöruðu auglýsingunni.

Fjarskiptasjóður ákvað á grundvelli þessa að bæta umræddum stöðum við upphaflegt umfang verkefnisins enda rúmaðist þessi aukning innan útboðsreglna. Fjarskiptasjóður og Síminn hf. skrifuðu undir samning um verkefnið 25. febrúar sl. Samningsupphæðin hækkaði eðlilega við þessa aukningu á umfangi verkefnisins.

Í ljósi ofangreinds er rétt að komi fram að fyrirtækið eMAX var allan tímann upplýst um aðferðafræði fjarskiptasjóðs við afmörkun útboðsins. Fyrirtækið sendi inn vönduð gögn til afmörkunar áður en útboðsgögn voru send út. Fyrirtækið sendi hvorki inn leiðréttingar á tilboðsfresti né sá ástæðu til að bregðast við opinberri auglýsingu eftir að tilboð voru opnuð. Fjarskiptasjóður var því í góðri trú um umfang verkefnisins.

Forráðamenn eMAX settu sig hins vegar í samband við fjarskiptasjóð fljótlega eftir að samningur var kominn á, vegna umræddrar skörunar við þeirra markaðssvæði. Þær upplýsingar komu mjög á óvart í ljósi fyrri samskipta við fyrirtækið út af sama máli allt frá ársbyrjun 2007.

Í samningi fjarskiptasjóðs vegna uppbyggingarinnar er gert ráð fyrir ákveðnum sveigjanleika vegna staðalista. Ekki verður þó séð að þessar ný tilkomnu upplýsingar muni hafa áhrif á heildarframgang verkefnisins.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum