Hoppa yfir valmynd

Frétt

16. júní 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ályktun um aðstæður barna og barnavernd

Velferðarvaktin hefur samþykkt ályktun um aðstæður barna og barnavernd sem m.a. er sett fram í ljósi fjölgunar á tilkynningum til barnaverndarnefnda á undanförnum mánuðum sem gefa til kynna alvarlegan vanda meðal hóps barna og barnafjölskyldna. Til að unnt sé að draga óyggjandi ályktanir um ástæður þessarar fjölgunar mun velferðarvaktin í samvinnu við þrjú sveitarfélög láta gera könnun á nýjum málum sem bárust barnaverndarnefndum sveitarfélaganna á fyrstu þremur mánuðum þessa árs. Sveitarfélögin hafa lýst sig reiðubúin til samstarfs.

- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -

Ályktun velferðarvaktarinnar um aðstæður barna og barnavernd

Samþykkt á 11. fundi stýrihóps velferðarvaktarinnar 12. júní 2009

Tilkynningum til barnaverndarnefnda hefur fjölgað verulega á undanförnum mánuðum, mest í Reykjavík og á Reykjanesi, eða um 40% miðað við sama tíma í fyrra, en algengt er að tilkynningum hafi fjölgað á bilinu 10–20% hjá öðrum barnaverndarnefndum. Langmest atvinnuleysi er á sömu svæðum. Á Suðurnesjum var 14,3% atvinnuleysi í apríl síðastliðnum og 9,8% á höfuðborgarsvæðinu. Velferðarvaktin hefur af þessu tilefni haldið sameiginlegan fund með forstjóra Barnaverndarstofu og félagsmálastjórum sem starfa bæði á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni.

Fjölgun tilkynninga til barnaverndarnefnda er vísbending um alvarlegan vanda og margt bendir til að hegðunarerfiðleikar og ofbeldi meðal ungmenna hafi aukist á síðastliðnum vetri. Velferðarvaktin telur að til þess að unnt sé að draga óyggjandi ályktanir af þessari fjölgun barnaverndartilkynninga þurfi að kanna aðstæður betur. Líklegt er að samfélagið í heild, ekki síst fólk sem vinnur með börnum, vaki betur yfir velferð þeirra einmitt vegna efnahagsástandsins og kann það eitt og sér að hafa leitt til einhverrar fjölgunar tilkynninga.

Af þessu tilefni mun velferðarvaktin óska eftir samstarfi við Reykjavíkurborg, Reykjanesbæ og Sveitarfélagið Árborg um könnun á nýjum málum sem bárust barnaverndarnefndum sveitarfélaganna á fyrstu þremur mánuðum þessa árs. Kannaðar verði ástæður tilkynninganna og félagslegar og fjárhagslegar aðstæður fjölskyldna barnanna. Enn fremur leggur velferðarvaktin áherslu á að vinnuhópur um félagsvísa haldi sérstaklega til haga mælistikum sem gefa haldgóðar upplýsingar um aðstæður barna.

Velferðarvaktin beinir þeim tilmælum til félags- og tryggingamálaráðuneytis að skráning mála hjá barnaverndarnefndum verði betur samræmd svo raunhæfur samanburður sé mögulegur og skýr mynd fáist af fjölda barnaverndarmála sem eru í vinnslu hjá hverri nefnd á hverjum tíma.

Úttekt velferðarvaktarinnar á stöðu félagsþjónustunnar í sveitarfélögunum frá mars 2009 hefur leitt í ljós að sveitarfélögin hafa ýtt úr vör margþættum aðgerðum til að draga úr alvarlegum afleiðingum efnahagshrunsins á heimilin. Mikilvægt er að þau haldi þessu góða starfi áfram og gæti þess að fyrirsjáanlegur niðurskurður komi ekki niður á barnaverndarstarfinu og það verði frekar styrkt. Enn fremur leggur velferðarvaktin áherslu á að almenn þjónusta við börn verði ekki skert á krepputímum, hvorki af hálfu ríkis né sveitarfélaga.

Skjal fyrir Acrobat Reader Ályktun um barnavernd (sem pdf.skjal).

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum